148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætla aftur að minnast á fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem veldur mér meira en hugarangri, ég er sorgmædd yfir henni, enda er Flokkur fólksins að berjast gegn fátækt á Íslandi.

Það er svolítið undurfurðulegt að tala um 300.000 kr. lágmarksframfærslu 1. maí þegar staðreyndin er sú að það eru ekki nema rúmar 240.000 kr. sem koma í umslagið. Ég spyr hér út í loftið, þjóð og þing: Hver getur lifað af skattpeningunum sem fara inn í ríkissjóð? Hvers lags forgangsröðun er þetta?

Það á að lækka bankaskattinn, það kostar 14 milljarða fyrir ríkissjóð. Það á lækka tekjuskattinn um allt að 1%. Og hverjum kemur það til góða? Mér og mínum líkum, fólki sem er komið núna með ofurlaun. Þeir sem minnst bera úr býtum hafa nánast ekkert upp úr krafsinu, nema einhverjar krónur. Á sama tíma og Íslendingar, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, eru að greiða á bilinu 240.000–300.000 kr. í húsaleigu þykir bara allt í lagi að þeir fái útborgaðar 240.000 kr. 1. maí.

Ég mótmæli þessu harðlega, ég mótmæli því harðlega að næstu fimm ár skuli þau vera eyrnamerkt í þessa veru, að það sé endalaust verið að tala um þetta. Við erum að tala um 20 milljarða, bankaskatturinn sérstaki, sem á nú að lækka vegna þess að hagræða á fyrir bankana og auðvelda þeim samkeppni á markaði — ég spyr: Hvaða samkeppni? Hvaða markaði? Hvað eiga þeir skilið af almenningi yfir höfuð? Hvað hafa þeir gert annað en verið með belti og axlabönd, verið með verðtryggingu og okurvexti á hinn almenna borgara og alla lánþega hjá þeim? Við skuldum þeim ekki neitt. Mér finnst miklu nær að færa þetta fjármagn, sem er hvorki meira né minna en 20 milljarðar kr. sem felast í þessum bankaskatti og sem felast í 1% sem á að lækka tekjuskattinn, til þeirra sem á því þurfa að halda, til fátækasta fólksins í landinu, til þeirra sem liggja óbættir hjá garði og fá aldrei neinar alvörukjarabætur og ná aldrei endum saman.