148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ræða um málefni Hugarafls. Ég stóð fyrir utan velferðarráðuneytið sl. þriðjudag í þögn með um 200 manns vegna málefna Hugarafls. Það er einn sálfræðingur á öllu höfuðborgarsvæðinu og hann hefur ekki undan. Það á að rífa niður geðteymi Hugarafls án þess að vera búið að byggja upp nokkuð annað sem á að hjálpa viðkomandi fólki.

Í minningu vina minna sem kerfið brást og einnig vil ég tala um þá sem kerfið er að bregðast núna, illa veiku fólki sem má ekki eiga við og hrinda fram af brúninni — það á að gera allt til þess að koma í veg fyrir þetta — og í minningu þess sem skeði sl. þriðjudag ætla ég að nota seinni mínútuna mína hérna í þögn eins og Hugarafl gerði í baráttu fyrir þá.

[Þingmaður þegir í mínútu.]