148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kafli um heilbrigðismál þar sem veitt eru mikil fyrirheit í þeim málaflokki. Þar segir, með leyfi forseta:

„Íslenska heilbrigðiskerfið á að standast samanburð við það sem best gerist í heiminum. Allir landsmenn eiga að fá notið góðrar þjónustu …“

Sérstaklega er fjallað um geðheilbrigðismál í þessum kafla, rætt um geðheilbrigðisáætlun o.s.frv. en, herra forseti, þá sýna verkin merkin.

Við fengum upplýsingar um það í þessari viku að velferðarráðuneytið hafi tekið ákvörðun um að leggja niður teymið Geðheilsu – eftirfylgd sem starfað hefur innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins frá árinu 2003 í nánum tengslum við félagasamtökin Hugarafl. Það les maður í fjölmiðlum. Ég hef ekki heyrt þá ráðherra sem bera ábyrgð á þessu máli gangast við því hér, en ég veit að hér innan veggja er mikill og þéttur stuðningur við þá starfsemi. Svo ég vitni í grein Tryggva Gíslasonar í Morgunblaðinu byggist starfsemin á nýrri leið og er í samræmi við aðgerðaáætlun Alþingis og ályktun Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

Sá verknaður, að leggja teymið niður í óþökk skjólstæðinga, aðstandenda og allra sem að málinu koma, er á ábyrgð Vinstri grænna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Þessir flokkar bera ábyrgð á því að frjáls félagasamtök skuli útlæg ger vegna þess að að þeirri stefnu skal haldið til streitu að öll starfsemi af þessum toga skuli vera undir væng hins opinbera.