148. löggjafarþing — 50. fundur,  16. apr. 2018.

ummæli ráðherra um þingmann Pírata.

[15:39]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég get ekki nokkra einustu ábyrgð borið á hugrenningum hv. þingmanns. Ef hann treystir ekki dómstólunum er ekki við mig að sakast, heldur miklu frekar verður hann að leita í sínum eigin ranni að skýringu.

Ég veit ekki betur en að menn leiti til dómstólanna sýknt og heilagt að einhverra mati í mjög miklum og ríkum mæli, a.m.k. þeirrar sem hér stendur, en ég hef svo sem fagnað því að menn leiti til dómstóla til að útkljá allan ágreining. Það er einmitt þar sem menn eiga að leita aðstoðar við að útkljá ágreining sinn. Ég hef ekki orðið vör við annað en að menn treysti öllum dómstigum mjög vel til þess arna.