148. löggjafarþing — 50. fundur,  16. apr. 2018.

Lyklafellslína.

[15:48]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Því er til að svara að ég funda reglulega með Landsneti og ég hef svo sem áður fjallað sérstaklega um þessa framkvæmd. Ég hef ekki fundað með Landsneti eftir að síðasta niðurstaða varð ljós, úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Ég hef sömuleiðis ekki fundað með sveitarfélögunum. Sveitarfélögin hafa ekki alla vega enn sem komið er óskað eftir fundi með mér vegna þessa.

Almennt um þetta má síðan segja að við vitum öll í þessum sal að þessi mál eru flókin og viðkvæm. Við hér erum örugglega að einhverju leyti ósammála um það hversu langt eigi að ganga annars vegar í framkvæmdum og hins vegar í umhverfisvernd, svo um kæruleiðir og annað. Ég hef oft rætt það í mínu ráðuneyti og við samflokksmenn mína sem og þingmenn hér um þetta jafnvægi, að við eigum svolítið erfitt með að finna það.

Ég hef sömuleiðis oft spurt að því og látið fara yfir það hversu langt við erum að ganga. Erum við ganga í einhverjum tilfellum lengra en alþjóðasamningar eða ESB gera kröfur um? Það eru misjafnar skoðanir uppi um það, m.a. á milli ráðuneyta. Ég held að vænlegast væri ef okkur tækist að fá fleiri að borðinu fyrr í ferlinu til þess að reyna að fá fram óeiningu og ágreining og kærur fyrr í ferlið en ekki svona seint eins og nú er. En ef það er algjör skylda hjá okkur að hleypa m.a. hagsmunasamtökum að alveg síðast í ferlinu þá er kannski lítið við því að gera nema bara að vinna betur saman. Við erum með ýmsar framkvæmdir hvort sem eru vegaframkvæmdir eða hjá Landsneti (Forseti hringir.) og þetta getur orðið ótrúlega erfitt og er farið að taka alveg ótrúlega langan tíma. Við hljótum öll að vera sammála um að vilja laga það einhvern veginn.