148. löggjafarþing — 50. fundur,  16. apr. 2018.

niðurskurður í fjármálaáætlun.

[16:13]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Það væri alltaf skemmtilegra að eiga hér orðastað við þingmenn án þessara gífuryrða og sleggjudóma sem menn fella hér, eins og dæmi eru um með þeim orðum að ráðherra sem hér stendur sé sama um þá þjónustu sem tiltekin undirstofnun ráðherra veiti. Þvert á móti er mér mjög annt um að Útlendingastofnun geti sinnt sínu lögbundna hlutverki sem lýtur m.a. að þeim sem sækja hér um dvalarleyfi, koma hér í hefðbundnum tilgangi til dvalar til lengri eða skemmri tíma, óska eftir atvinnuleyfi og þar fram eftir götunum.

En það verður að segjast alveg eins og er að ég hef áhyggjur af því að Útlendingastofnun hafi ekki getað sinnt því hlutverki af þeirri kostgæfni eins og best verði á kosið, m.a. vegna þess álags sem sú stofnun hefur búið við undanfarin misseri í mjög vandasömum og nýjum verkefnum sem felast m.a. í afgreiðslu umsókna um hæli hér á landi. En ég vona að það horfi til betri vegar m.a. með mikilli reynslu starfsmanna stofnunarinnar og minnkandi álagi (Forseti hringir.) vegna hælisumsókna og breytinga á lögum er varða dvalarleyfi og atvinnuleyfi sem breytt var fyrri skemmstu. Það hefur haft mjög jákvæðar afleiðingar í för með sér fyrir (Forseti hringir.) störf Útlendingastofnunar.