148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

skipulag haf- og strandsvæða.

425. mál
[17:01]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna því að hér sé komið fram að nýju frumvarp um skipulag haf- og strandsvæða. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á áðan hafa sveitarfélög og hagsmunaaðilar kallað eftir því lengi að sett verði á löggjöf um skipulag strandsvæða sem er nýtt viðfangsefni í skipulagsmálum á Íslandi og virkilega spennandi viðfangsefni.

Eins og margir þekkja hefur á síðustu árum orðið mikil aukning í starfsemi á haf- og strandsvæðum og sívaxandi eftirspurn er eftir athafnasvæðum, m.a. vegna fiskeldis, ferðaþjónustu og efnistöku. Reynsla síðustu ára hefur svo sýnt að skortur hefur verið á yfirsýn og stefnumótun og þar með mikil þörf fyrir lög sem þessi. Við höfum fjölmörg dæmi um það, bæði á Vestfjörðum og Austfjörðum. Vestfirðingar hafa reyndar gengið á undan með góðu fordæmi og til að mynda unnið nýtingaráætlun fyrir strandsvæði Arnarfjarðar þar sem allir hagsmunaaðilar voru kallaðir að borðinu ásamt sveitarfélögum til að fjalla um nýtingu fjarðarins, þ.e. á svæði sem afmarkast af línu sem liggur 115 m frá stórstraumsfjöruborði og að línu sem liggur 1 sjómílu utan við grunnlínu landhelginnar. Áætlunin er eðli málsins samkvæmt ekki lögformleg skipulagsáætlun, en við gerð hennar voru verkferlar svæðisskipulags hafðir til hliðsjónar. Áætlunin hefur svo verið leiðarljós sveitarfélaga við ákvarðanatöku á strandsvæðinu, svo sem við gerð umsagna og leyfisveitingar. Reynslan af þessari áætlun, sem og reynsla annarra þjóða, hefur sýnt að með þessu er hægt að stuðla að sjálfbærri nýtingu strandsvæðanna okkar, draga úr hættu á hagsmunaárekstrum á þeim og vernda um leið umhverfið með aðferðafræði skipulagsáætlana sem hlýtur að vera markmið sem við viljum öll hafa og markmið sem við viljum sjá verða að raunveruleika.

Þetta frumvarp skiptir því miklu máli varðandi nýtingu strandsvæðanna okkar og mun væntanlega hafa í för með sér miklar breytingar á allri umfjöllun um leyfisveitingar og fleira. Því væri æskilegt að horfa til annarra frumvarpa sem tengjast nýtingu strandsvæðanna. Nefni ég þar t.d. frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mál nr. 457, sem mælt var fyrir þann 10. apríl sl. Það vakti athygli mína að því miður er í því frumvarpi ekki minnst einu orði á skipulag strandsvæða og var það ekki heldur að finna í framsögu hæstv. ráðherra, heldur er sérstaklega talað um samráð við aðliggjandi sveitarfélög. Ég vona að hv. umhverfis- og samgöngunefnd skoði þetta sérstaklega, enda í lófa lagið, þar sem verið er að ræða þessi frumvörp samhliða, að gæta að þessu og gæta að því að það sé samræmi þarna á milli. Vonandi taka bæði þessi frumvörp gildi á þessu þingi.

Það frumvarp sem við fjöllum um hér er um margt ágætt þó að sumir hefðu e.t.v. viljað ganga lengra, einkum hvað varðar forræði sveitarfélaganna eins og við komum inn á í andsvörum. Þau hafa lengi kallað eftir því að skipulag strandsvæða, allt að 1 sjómílu út frá grunnlínu landhelginnar, verði á forræði sveitarfélaga. Ég held samt að í þessu frumvarpi hafi náðst sæmileg málamiðlun þar sem fulltrúar sveitarfélaga munu sitja í svokölluðum svæðisráðum eins og kom fram í andsvörunum, þó að þau verði þar ávallt í minni hluta.

Hagsmunir íbúa í sveitarfélögunum sem um ræðir eru í mörgum tilfellum mjög miklir, í einhverjum tilfellum vegna mögulegrar atvinnuuppbyggingar en í öðrum vegna mikilvægis verndar umhverfis sveitarfélagsins sem er ekki síður mikilvægt.

Í því samhengi verð ég að gera verulega athugasemd við orðalag greinargerðar frumvarpsins efst á bls. 36, í skýringum um 5. gr. en þar segir, með leyfi forseta:

„Sökum hagsmuna sveitarfélaga af nýtingu þeirra auðlinda sem eru á þeim strandsvæðum sem að þeim liggja …“

Þetta mætti skilja sem svo að ráðuneytið telji að sveitarfélögin hafi ekki einnig áhuga á eða hagsmuni af verndun strandsvæða. Þetta tel ég alrangt og hafa sveitarfélögin sýnt það í verki og nefni ég sem dæmi afstöðu sveitarfélaganna við Ísafjarðardjúp hvað varðar fiskeldi í Jökulfjörðum.

Herra forseti. Það er einnig ein veigamikil breyting í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar frá því sem lagt var fram á síðasta þingi, en það er að nú er gert ráð fyrir því að umhverfisverndarsamtök fái áheyrnarfulltrúa í svæðisráðin. Með fullri og mikilli virðingu fyrir umhverfisverndarsamtökum og því mikilvæga starfi sem þau öll sinna verð ég að telja í hæsta máta óeðlilegt að einn hagsmunahópur umfram aðra fái aðild að svæðisráði, sem hlýtur að teljast ígildi svæðisskipulagsnefndar. Ég tel mjög mikilvægt að framkvæmd skipulags sé með þeim hætti að hagsmunaaðilum sé haldið frá lokaákvörðunum í hvers lags skipulagsnefndum, en í skipulagsferlinu sjálfu á, eins og hæstv. ráðherra kom sjálfur inn á áðan, að gæta mjög að því að öll sjónarmið komi fram. Það má auðvitað taka undir að gott sé að umhverfisverndarsamtök komi að snemma í ferlinu við skipulag strandsvæða en að það þurfi að gerast með þessum hætti tel ég, eins og ég nefndi áður, verulega óeðlilegt. Það kæmi mér líka nokkuð á óvart að umhverfisverndarsamtök myndu vilja bera ábyrgð á ákvörðunum á þennan hátt og missa þar með e.t.v. stöðu í mögulegum kærumálum.

Ég velti líka fyrir mér af hverju fulltrúar slíkra samtaka ættu frekar en aðrir hagsmunaaðilar að mega vera áheyrnarfulltrúar í svæðisráði. Af hverju t.d. ekki fulltrúar annarra hagsmunaaðila eins og íbúasamtök eða, ef við göngum enn lengra, fulltrúar fiskeldisfyrirtækja? Við getum vænst þess að fulltrúar helstu atvinnuvega muni telja sig hafa enn sterkara tilkall en umhverfisverndarsamtök til að eiga aðkomu að svæðisráðum. Ef orðið verður við slíkum beiðnum gætu ráðin hins vegar orðið ansi fjölmenn og því skynsamlegra að tryggja aðkomu þessara aðila með öðrum hætti. Ef hugmyndin er sú að þau séu þarna vegna kæruréttarins segir í 2. mgr. 91. gr. laga um náttúruvernd, með leyfi forseta:

„Kærurétt eiga þeir sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun og náttúru- og umhverfisverndarsamtök og útivistarsamtök sem varnarþing eiga á Íslandi, enda séu félagsmenn samtakanna 30 eða fleiri og það samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að.“

Herra forseti. Ég velti líka fyrir mér hvernig eigi að framkvæma þetta. Hvað ef mörg umhverfissamtök lýsa áhuga á setu í þessum svæðisráðum? Hver sker úr um það? Eiga samtök í héraði t.d. meiri rétt til setu en landsdekkandi samtök o.s.frv.? Þá er líka spurning um rétt samfélaganna eins og ég kom inn á áðan. Hver er hann? Íbúar og útivistarsamtök geta einnig átt kærurétt. Eiga þau þá ekki einnig að hafa áheyrnarfulltrúa í svæðisráði?

Ég vil þess vegna velta því hér upp og vona að umhverfis- og samgöngunefnd skoði það. Til að koma til móts við sjónarmið varðandi aðgengi umhverfisverndarsamtaka mætti nefna þau sérstaklega sem aðila sem væri skylda að leita til eftir sjónarmiðum, eins og kveðið er á um í 7. gr. frumvarpsins varðandi sérstakt samráð við viðkomandi sveitarfélög um samræmingu skipulags strandsvæða og skipulagsáætlana samkvæmt skipulagslögum og hafnarstjórnir vegna hafnarsvæða. Ég held að það væri mun eðlilegri leið þegar upp er staðið til að tryggja aðkomu umhverfisverndarsamtaka en hin sem ég ítreka að mér finnst mjög æskileg. Auðvitað eigum við í allri skipulagsvinnu að reyna að tryggja sem víðtækast samráð við alla hagsmunaaðila eins og hefur heppnast mjög vel í fjölmörgum dæmum.

Ég á von á því að þetta sjónarmið komi fram í mörgum umsögnum í nefndinni. Ég vil nota þetta tækifæri til að hvetja hv. þingmenn í umhverfis- og samgöngunefnd til að breyta þessu í umfjöllun sinni og skapa þar með nauðsynlega sátt um frumvarpið og skipulags haf- og strandsvæða.