148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum 2018--2029.

479. mál
[17:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka ráðherra fyrir ágæta yfirferð yfir þessa þingsályktunartillögu. Það sem mig langar að spyrja um í upphafi, þannig að ég skilji frekari umfjöllun og vangaveltur um þessa áætlun, varðar einkaeigu. Er það rétt skilið hjá mér með svæði sem mögulega falla undir þessa áætlun og eru í einkaeigu, að viðkomandi aðili geti tekið ákvörðun um að taka ekki þátt í áætluninni? Ef ég á einhverja fallega tjörn sem gæti fallið undir þetta með einhverjum hætti, hún er inni á minni landareign og ríkið eða eitthvert apparat sem hér er nefnt í áætluninni vill fella hana undir áætlunina, gæti ég bara sagt nei, takk?