148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[19:49]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni hennar svör. Varðandi það að flytja verkefni til sýslumanna, reynslan af því fyrir áratug eða meira þegar átti nú aldeilis að gera það, efla þessi embætti með því að flytja verkefni til sýslumanna, það tókst svona upp og ofan. Það voru einungis verkefni á sviði dómsmálaráðuneytisins sem voru flutt til sýslumanna og yfirleitt bara smáverkefni. Einhverjar færslur, smá bókhald, lítil verkefni sem kölluðu ekki nema í örfáum tilvikum á mannskap. Þannig að ég endurtek og vona að hv. þingmaður sé mér sammála að það verður þá að vera alvörumeining á bak við það og öll ráðuneyti að taka þátt í því. Það er mjög mikil efling í byggðamálum ef tekst að flytja verkefni úr sem flestum ráðuneytum til þessara embætta sem eru náttúrlega opinberar stofnanir, oft kannski einu opinberu stofnanirnar á stórum svæðum, og myndi halda í þeim lífi, þau hafa fjölmörg önnur verkefni og eru að koðna niður eins og ég nefndi áðan.

Hv. þingmaður nefndi eitt mjög athyglisvert varðandi nýjar stofnanir. Ég vil taka undir orð hv. þingmanns um að þegar settar eru á fót nýjar stofnanir verði þær settar út á land og aukinn vilji verði til þess. Þá er ég að tala um alvöruvilja, það sé gert. Ég er búinn að vera hérna í nokkra mánuði og hef ítrekað séð að það eigi að setja á stofn ný embætti, ekki kannski stórar stofnanir en embætti. Alltaf verið að tala um það, alltaf einhverjar ráðagerðir um það. Af hverju er þetta ekki sett út á land í miklu meira mæli en verið hefur? Hefur hv. þingmaður íhugað að kannski er besta byggðamálið að flytja ráðuneyti út á land? Þar vil ég sérstaklega nefna t.d. umhverfisráðuneytið. Af hverju getur það ekki verið á Akureyri? Hver er skoðun hv. þingmanns á þessari uppástungu minni?