148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[20:24]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að segja að ég hef talað mig hásan víða um að minna á þá stefnu sem kom fram í lögum um að færa þessi verkefni og mun halda því áfram. Ég mun halda áfram að minna fólk, hvort sem það eru ráðherrar eða embættismenn eða hverjir það eru og í hvaða flokki sem þeir eru, á að þetta var það loforð sem var gefið. Þetta er stefna sem Alþingi samþykkti. Henni skal fylgja. Þess vegna er ég fylgjandi þeim hugmyndum sem hv. þingmaður kom inn á, að flytja verkefni frá hinum fjölbreyttu stofnunum ríkisins. Og þá sérstaklega verkefni þar sem verið er að þjónusta borgarana. Það á til dæmis algjörlega heima hjá sýslumönnum þegar fólk þarf að afhenda eða fá skjöl, slík þjónusta á heima þar. Rafrænar þinglýsingar — ef það verkefni kemst í gegn er einboðið að hafa það hjá sýslumanninum á Suðurlandi sem dæmi.

Varðandi aðra spurningu, sem kom í fyrra andsvari hv. þingmanns, um stofnanir og hugmyndir til að flytja í heilu lagi út á land, held ég að við eigum að stilla fókusinn. Stofnanir og ríkisstörf eru ekki það besta sem landsbyggðin fær. Ég held að við eigum að setja fókusinn algerlega á að byggja þessa grunninnviði. Þá verða byggðirnar sjálfbærar. Þá byggjast upp verðmætari og framsæknari störf en ríkisstörf.

Varðandi náttúrustofurnar segi ég stoltur frá því að það tókst hjá okkur í þinginu að auka framlög til þeirra við síðustu fjárlagagerð. Við þurfum að halda áfram til að bæta hlut þeirra. Þær eru okkur mikilvægar á þessum tímum þegar við erum að kortleggja hvernig við verndum umhverfi okkar sem best.