148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[21:10]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu og getum við verið sammála um margt sem þarf að gera í byggðamálum. Mestu skiptir held ég núorðið að það sé einhver miðlæg hugsun ef má orða það þannig. Ég persónulega hefði viljað sjá byggðamálin staðsett í forsætisráðuneytinu og talaði á þeim nótum meðan sá málaflokkur heyrði undir mig sem ráðherra. Ástæðan fyrir því er sú að það er mikilvægt að það sé einhver sem horfir á þetta miðlægt, hafi yfirsýn yfir allt og geti tengt alla þræði saman. Það er fyrst og fremst forsætisráðuneytið sem getur það.

En ég kom nú ekki hingað upp til þess að ræða það við hv. þingmann. Þingmaðurinn sagði í sinni ræðu, heyrði ég rétt, að það væri gaman að sjá hve margar hugmyndir eða margar tillögur væru fjármagnaðar í nýrri fjármálaáætlun. Nú er það þannig að byggðaáætlun og fjármálaáætlun ná nánast yfir sama tímabil.

Ég velti því upp við hv. þingmann hvort það sé ekki eitthvað undarlegt að leggja fram fjármálaáætlun sem nær yfir svipað tímabil eða nánast það sama og byggðaáætlunin og verkefnin séu ekki fjármögnuð. Við hljótum að velta fyrir okkur hversu mörg verkefni eru ófjármögnuð í byggðaáætluninni og hvort við finnum þeim stað í fjármálaáætluninni. Ég spyr hv. þingmann hvort það hafi verið rætt í stjórnarflokkunum að laga þetta, eða, og kalla þá eftir hennar skoðun á því, hvort það sé eðlilegt að leggja fram þessar tvær áætlanir þar sem önnur á að taka mið af hinni en gera það ekki?