148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[17:10]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi er það rangt hjá hv. þingmanni að búið sé að ráðstafa þessum 1.000 tonnum fyrir fram. Reglugerðin er ekki komin. En vissulega hefur verið sagt að hún sé á leiðinni. Við höfum náttúrlega ekkert til þess að byggja á nema tölfræðina. Tölfræðin er nokkuð skýr vegna þess að við erum bara að tala um ákveðið marga báta, ákveðið mörg tonn, ákveðið marga sóknardaga, ákveðið mikið hámark á afla á dag. Ég held að það séu allar breyturnar sem skipta máli, plús veðrið auðvitað.

Út frá því gæti það vissulega gerst að allt í einu bættust við þúsund bátar, en það kostar peninga. Það mun ekki gerast í raunveruleikanum. Við getum búið til einhverjar fantasíur um að eitthvað svoleiðis gerist, en við erum að tala um raunveruleikann. Ég er nýlega búinn að tala hér í 20 mínútur um að við reynum að passa upp á að verja afkomu fólks. Hér er tillaga sem á eftir að ræða betur í nefndinni, sem ekki er fullrædd og var í rauninni mjög takmarkaður vilji fyrir því að ræða til fulls í nefndinni enn sem komið er, en tekið hefur verið jákvætt í að ræða hana milli 2. og 3. umr. Þess vegna finnst mér frekar undarlegt að verið sé að reyna að herma upp á mig að ég ógni afkomu fólks. Þvert á móti.

Það mikilvægasta í þessu efni er einmitt að tryggja að þeir sem stunda þessar veiðar geti gengið að ákveðnu öryggi. Öryggið felst í því að allir hafi góðan og jafnan möguleika á því að sækja sjóinn, að þeir geti gert það í öruggu umhverfi, að ekki sé verið að sækja í brælu og að jafnræði gildi milli þeirra sem stunda veiðar óháð því hvar á landinu þeir eru. Það er ekki fullkomlega tryggt með núverandi tillögu. Ég held að við séum (Forseti hringir.) ekki langt frá því að tryggja það, en höldum okkur við raunveruleikann.