148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[17:20]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu strandveiðifrumvarpið sem svo er kallað, sem atvinnuveganefnd leggur fram og allir skrifa undir. Vissulega hefur margt verið rætt hér og bent á og gagnrýnin hefur verið þó nokkur á þetta frumvarp, en heilt yfir höfum við ekki fengið beina gagnrýni á það fyrirkomulag sem komið var á 2009. Þetta er tíunda sumarið sem við erum að renna inn í með þessa tilraun sem ég held að hafi gefist nokkuð vel og sé raunverulegt byggðaúrræði þegar við tölum bæði brothættar byggðir og viðkvæmar.

Hér hefur verið talað um misræmi á milli svæða og að þetta frumvarp sé eitthvað í áttina að leiðrétta það. Við getum vissulega viðurkennt að það er misræmi á milli svæða í núverandi kerfi, núgildandi lögum, það er kannski á mismunandi hátt. Sumir benda á eins og hv. þm. Karl Gauti Hjaltason og gagnrýna að frumvarpið sé einungis komið fram til þess að gæta hagsmuna þeirra sem eru á A-svæði. Mér finnst það nokkuð sérstakt þar sem ég kem reyndar frá því svæði og kannast alveg við hvaða áhrif þetta hefur haft á þessi byggðarlög. Enn fremur rekur mig eiginlega í rogastans þegar hv. þingmaður bendir á að það sé svo gott að liggja inni á fjörðum á Vestfjörðum að veiða. Ég held að þeir bátar sem hafa verið í strandveiðum liggi ekkert inni á fjörðum, þeir eru úti á miðum. Ef vestfirsk fiskimið eru orðin þau rólegustu og þar sé alltaf rjómablíða, þá kannast ég alla vega ekki við það. Þetta getur verið erfitt svæði. Ég þekki það vel vegna þess að þaðan sem ég kem frá, í Bolungarvík, hafa legið upp undir 30 bátar við bryggju sem hafa verið í þessu kerfi. Fyrstu daga hvers mánaðar af sumrinu hefur maður stundum verið svolítið skelkaður að horfa eftir þessum litlu skeljum fara út í hvaða veðri sem er til þess að reyna að ná í einhvern afla, þetta hefur farið allt niður í fjóra daga. Við höfum haft dæmi um sjómenn sem báturinn bilar kannski hjá og þeir komast þá aldrei út á sjó því að aflinn hefur verið búinn. Það hefur í gegnum tíðina alltaf verið stoppað á A-svæði, alltaf, af því að bátarnir hafa farið yfir magnið.

Mér finnst svolítið stangast á sú gagnrýni sem hefur komið fram. Sumir segja að það ætti að taka þessa viðbót sem við erum fá, þessi 1.500 tonn, og færa yfir á A-svæði til þess að jafna þennan mun. En svo kemur sú gagnrýni að í þessu kerfi sem er verið að leggja til að breyta núna muni bátarnir koma til með að hrúgast allir á A-svæðið því að þar sé mesti möguleikinn að koma aflanum í bátana og í land. Þetta finnst mér stangast á. Ef þessi viðbótarafli yrði settur á A-svæðið, hvað myndi gerast? Ég held að fleiri bátar myndu fara þangað á svæðið og þá hefst enn þá meira kapphlaup þannig að ég get ekki séð að það breyti nokkru.

Vissulega er ótti við breytingar. Mér finnst það ekkert óeðlilegt. Hérna erum við að tala um afkomu fólks og alltaf er maður svolítið skeptískur á allar breytingar og það veldur kvíða, það er skiljanlegt. Ég held það hafi verið hv. þm. Jón Gunnarsson sem nefndi að kannski myndi fjölga bátum í kerfinu. Ég held að það sé sleginn nokkur varnagli við því og þeim muni ekki fjölga. Atvinnuástand er almennt gott í landinu þannig að fólk fer ekki að fara úr öruggri atvinnu í þetta. Við horfðum á það fyrir nokkrum árum að það voru náttúrlega margir sem prófuðu þetta þar sem þeir voru kannski atvinnulausir, áttu samt báta eða ekki. Síðan er fiskverð núna í sögulegu lágmarki. Ég held að enginn rjúki í þetta til þess að ná í einhverjar tekjur, ég held að þarna séu ekki þeir tekjumöguleikar sem fólk sé endilega að einblína á.

Hér hefur verið rætt um tölfræði sem við höfum verið að velta fyrir okkur fram og til baka og tölfræðin sýnir að það séu 80% líkur á því að þetta dugi. Auðvitað er það spurning hvort þetta dugi, kannski sérstaklega á D-svæði, en það er ekkert alls staðar öruggt að allir bátar hafi notað alla sína daga þar. Ég fékk t.d. núna tölur frá Akranesi. Þar hafði enginn bátur í fyrra farið yfir 45 daga á tímabilinu og náttúrlega er mismunandi hvað þeir hafa róið mikið, en sannarlega er í þessu frumvarpi ekki verið að tryggja 12 daga alla þessa mánuði. Ég held að við verðum að passa okkur á því að kynna þetta ekki sem slíkt. Ráðherra hefur það vald að stöðva veiðar þegar þessu hámarki er náð. Við getum aldrei og höfum hvorki gögn né annað slíkt til þess að áætla hvernig veðrið verður, ég held að það ráði miklu þarna og stjórni miklu meiru en ráðherra. Þannig að við þurfum að passa okkur svolítið á því, við getum ekki tryggt þetta. Við megum ekki tala um það þannig. Auðvitað verður alltaf að vera eitthvert lok á þessum veiðum, það er ekki hægt að hleypa þessu alveg frjálst.

Þessi breyting er held ég alveg tilraunarinnar virði. Ef við tökum saman í haust bæði tölfræðina og hvernig þetta hefur gengið þá verður hægt setja puttann á það hvort þetta hafi tryggt öryggi, hvernig sem það verður gert, ekki ætla ég svo sem að koma með neinar faglegar ábendingar um hvernig hægt væri að gera það, en ég hugsa að Landhelgisgæslan gæti alveg komið að þeim málum. En eins og þetta lítur út núna er talað um að miklar líkur séu á að tilraunin takist og magnið sé nægjanlegt og þá held ég að þetta skipti gríðarlega miklu máli hvað öryggið varðar. Við höfum séð litla báta fara út í hvaða veðri sem er, þeir liggja oft upp við strendur eða nálægt ströndum og eru þar að krafla og koma með lélegri afla í land, í staðinn fyrir að þeir fengju svigrúm að komast út á þessum dögum og dreifa þeim svolítið betur yfir mánuðinn og geta þá tryggt góðan afla. Ég held að það séu engar deilur um það að aflinn í strandveiðunum er mjög góð vara og eftirsóknarverð. Ég held við deilum ekkert um það.

Ég held að það sé komið sem ég var að hugsa um. En svona heilt yfir þá held ég þetta sé tilraunarinnar virði. Ráðherra hefur heimild til að stöðva veiðarnar þegar takmörkunum er náð. Það er spurning hvort við eigum að skoða þessa tillögu frá hv. þm. Smára McCartney — nei, nú sagði ég þetta aftur, hann fyrirgefur mér það, ég gerði þetta víst einhvern tímann um daginn. Það er líka jákvætt að ufsinn sé tekinn út fyrir og það skiptir miklu máli fyrir D-svæðið. Þá erum við að koma í veg fyrir brottkast og auka þennan aflamöguleika, ég held að einhverjir sérfræðingar hafi talað um að þetta séu um 300 tonn sem skiptir vissulega máli, og þetta er aðallega á D-svæði, skilst mér.

Það er svo sem ekkert fleira sem ég held að ég vilji nefni en ég endurtek að mér finnst þetta tilraunarinnar virði.