148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[18:46]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir ræðu hans. Ég virði skoðanir hans í þessu máli og get alveg tekið undir hluta af þeim. En þingmaðurinn kom inn á 5,3% í sambandi við rækju og skel og línuívilnun, byggðakvóta, þar sem það er tekið úr. Mér fannst eins og þingmaðurinn væri að tala um að kominn væri tími til að taka rækju- og skelbæturnar út. Þá vil ég benda á að þó að skelveiðar séu hafnar, þó að hörpudiskur sé aftur farinn að sjást í Breiðafirði, er það aðeins brot af því sem var þegar var og hét, sem voru um 9.000 tonn þegar best var en eru nú um 700–1.000 tonn og er enn á tilraunastigi. Það eru útgerðir í fiskvinnslu í Stykkishólmi sem reiða sig á að þetta verði ekki tekið af og eiga mikið undir því að þetta breytist ekki.

Ég var að reyna að gúgla hver potturinn var 2009 en er ekki alveg viss. Ég fékk hér töluna 8.600 tonn. Finnst það nú kannski fullmikið, mig minnir að hann hafi verið rúmlega 6.000 en alla vega ekki rúmlega 4.000 eins og kom fram í ræðu þingmannsins.