148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

trygging gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga.

14. mál
[19:41]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Það er alltaf gleðilegt þegar víðtæk þverpólitísk sátt næst um mál hér á Alþingi. Slík sátt hefur náðst í þessu mikilvæga máli. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur, framsögumanni efnahags- og viðskiptanefndar, fyrir hennar framsögu með nefndarálitinu sem og nefndinni allri fyrir að koma málinu hingað til síðari umræðu með sameiginlegu jákvæðu nefndaráliti. Þá ber að þakka samflutningsmönnum mínum en við erum níu þingmenn sem flytjum þessa þingsályktunartillögu.

Þessi samstaða er mjög mikilvæg. Það er mikilvægt fyrir framgang málsins hér í þinginu en ekki síður framgang efnis tillögunnar, þegar það á að koma til framkvæmda undir verkstjórn hæstv. fjármálaráðherra og ráðuneytis hans, að þingið stendur, vonandi kemur það í ljós við atkvæðagreiðsluna, einhuga að baki þessari þingsályktunartillögu.

Eins og fram kemur í ályktuninni er verkefnið sem ráðist verður í tvíþætt. Annars vegar endurskoðun löggjafar og regluverks á þessu sviði. Það er nauðsynlegt til að endurbæta og lagfæra þá umgjörð sem tekur beint og óbeint til opinberra fjárfestinga af ýmsu tagi. Þar þarf að búa þannig um hnúta að reglurnar séu í senn nútímalegar og í takti við það sem best hefur gefist í þeim ríkjum sem við berum okkur helst saman við og hafa náð bestum og mestum árangri á þessu sviði. Hins vegar er það sá þáttur tillögunnar sem lýtur að formlegum samstarfsvettvangi stjórnvalda, atvinnulífs og fræðasamfélags um gerð rammaáætlana til þriggja ára í senn til að byggja upp þekkingu og færni ásamt því að efla rannsóknir. Þessi þáttur málsins er ekki síður mikilvægur til að ná verulegum árangri. Eins og fram kemur í nefndarálitinu er þetta langhlaup. Viðhorf og verkmenning eru inngróin og það þarf tíma til þess að breyta þeim.

Herra forseti. Það er rétt að árétta að til að ná þeim samfélagslega árangri sem að er stefnt þarf að kosta nokkru til. Ég vil því brýna okkur þingmenn, hæstv. fjármálaráðherra og fjárlaganefnd til að veita verkefninu þann fjárhagslega grundvöll sem nauðsynlegur er. Í greinargerð með tillögunni er meðal annars vísað til þess árangurs sem Norðmenn hafa náð með sinni aðferðafræði á löngu árabili. Þar hefur til dæmis verið tryggt að hliðstæður vettvangur rannsókna og þekkingaruppbyggingar hafi fjármuni til þess að sinna verkefni sínu undir verndarvæng norska fjármálaráðuneytisins. Gerðir eru samningar um verkefnið til þriggja ára í senn með skilgreindum verkefnum sem á að sinna. Það held ég að eigi líka að gera hér.

Skilaboðin sem felast í þessari þingsályktunartillögu eru skýr. Við viljum og ætlum að gera betur til að tryggja gæði, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga. Það liggur fyrir að á næstu árum og áratugum þarf að ráðast í viðamiklar fjárfestingar á mörgum sviðum og þar er mikilvægt að vel takist til en tugir milljarða ef ekki hundruð eru undir í þessi verkefni. Í húfi er mikill samfélagslegur ávinningur ef við stöndum vel að verki og tökum viðfangsefnið föstum tökum. Ég held að það sé vilji okkar hér í þinginu að svo verði gert. Ég treysti því að þessi þingsályktunartillaga nái fram að ganga og að þegar hún hefur verið samþykkt verði henni fylgt fast af hæstv. fjármálaráðherra og þinginu öllu.