148. löggjafarþing — 55. fundur,  25. apr. 2018.

framtíð og fyrirkomulag utanspítalaþjónustu og sjúkraflutninga.

[15:53]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni, fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli. Við Íslendingar búum í einu strjálbýlasta landi heims. Af því leiðir annars vegar að það getur bæði verið erfitt og kostnaðarsamt að halda uppi sjúkraflutningaþjónustu í dreifðari byggðum. Hins vegar er ljóst af akkúrat sömu ástæðu að ef við ætlum að vera hér með heilbrigðiskerfi sem standa á undir nafni sem heilbrigðiskerfi allra landsmanna þurfum við að hafa hér öflugt og gott sjúkraflutningakerfi.

Það er kunnara en frá þurfi að segja hversu mikilvægt það er að fagfólk komi að málum sem fyrst eftir að slys ber að höndum eða bráðaveikindi koma upp. Það getur skipt sköpum. Stuttur viðbragðstími og sérhæfð viðbrögð eru lykilatriði.

Hv. þm. Vilhjálmur Árnason fór hér vel yfir helstu atriði sem huga þarf að og hæstv. ráðherra svaraði og fór vel yfir þau mál sem í vinnslu eru.

Mig langar til viðbótar að forvitnast um fyrirætlanir varðandi endurmenntun og þjálfun sjúkraflutningafólks. Þar hafa orðið verulegar breytingar á á ekki svo mörgum árum þannig að sjúkraflutningafólk er ekki eingöngu ábyrgt fyrir flutningunum, heldur er það orðið heilbrigðisstarfsfólk með þjálfun í fyrstu viðbrögðum við slysum og bráðum veikindum. Kröfur til þessara aðila hvað varðar færni og þekkingu í tengslum við fyrstu viðbrögð hafa aukist verulega undanfarin ár, m.a. með skipulagsbreytingum og síðan fjölgun ferðamanna, eins og farið hefur verið vel yfir hér.

Ég spyr: Er að mati hæstv. ráðherra þörf á enn frekari áherslum í átt til aukinnar menntunar eða þjálfunar? Almennt er kvartað undan fáum tækifærum til endurmenntunar. Síðan er það gjarnan vandamál á smærri stöðum að fólk sinnir því starfi í hlutastarfi og þar gengur eiginlega ekki upp að krefja það um að fara fjarri heimabyggð í oft langt og strangt nám og jafnvel bera sjálft kostnað af því.

Ég spyr því: Hvaða úrræði eru tæk að mati heilbrigðisráðherra til að nálgast þessa áskorun? Hvernig er hugað að þessum málum í áætluninni og stefnumótuninni? Væri mögulega hægt að nýta kosti fjarnáms hér eða annað slíkt? Mér þætti vænt um að fá svör við þeirri spurningu vegna þess að ég held að þetta eigi eftir að skipta sköpum jafnhliða aukinni fjárfestingu í úrræðunum.