148. löggjafarþing — 55. fundur,  25. apr. 2018.

trygging gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga.

14. mál
[16:53]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég trúi því einlæglega að samþykkt þessarar þingsályktunartillögu geti orðið upphafið að miklum samfélagslegum ávinningi ef rétt er haldið á spöðunum. Ég vil því brýna okkur þingmenn, hæstv. fjármálaráðherra og fjárlaganefnd, til að veita þessu verkefni þann fjárhagslega grundvöll sem nauðsynlegur er. Í greinargerð með tillögunni er m.a. vísað til þess árangurs sem Norðmenn hafa náð með aðferðafræði sinni á löngu árabili. Þar hefur t.d. verið tryggt að hliðstæður vettvangur rannsókna og þekkingaruppbyggingar sem þessi tillaga felur í sér hafi fjármuni til þess að sinna sínu verkefni undir verndarvæng norska fjármálaráðuneytisins. Gerðir eru samningar um verkefnið til þriggja ára í senn með skilgreindum markmiðum og verkefnum sem á að sinna. Það þarf líka að gera hér.