148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

siðareglur fyrir alþingismenn.

443. mál
[15:07]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun nr. 23/145, um siðareglur fyrir alþingismenn. Tillagan er flutt af forsetum Alþingis og þingmönnum sem eru áheyrnarfulltrúar í forsætisnefnd. Í tillögunni felast viðbrögð þingmanna við þeim opinskáu umræðum sem átt hafa sér stað í íslensku samfélagi, þar á meðal innan stjórnmálanna, um kynferðisofbeldi og áreitni innan þeirra.

Áður en ég geri grein fyrir tillögunni sjálfri vil ég leggja áherslu á að í gildandi siðareglum fyrir alþingismenn er undirstrikað það meginstef siðareglnanna að þingmenn eru kosnir til Alþingis til að vinna að hagsmunum alls almennings. Siðareglunum er jafnframt ætlað að efla gagnsæi í störfum alþingismanna og ábyrgðarskyldu þeirra, svo og tiltrú og traust almennings á Alþingi. Í þessu felst jafnframt að stuðla að heilbrigðu starfsumhverfi þjóðkjörinna fulltrúa og um leið að þingmenn beri virðingu fyrir starfi sínu, samherjum sínum, mótherjum og öðrum þeim sem erindi eiga inn á starfsvettvang þeirra og gagnvart þeim sem þingmenn eiga samskipti við í störfum sínum utan þings. Það er því eðlilegt og réttmætt, í ljósi þeirra krafna sem fram hafa komið, að í siðareglum fyrir alþingismenn komi fram sú meginregla að þingmenn skuldbindi sig til þess að leggja sitt af mörkum til að skapa heilbrigt starfsumhverfi innan þings sem utan sem sé laust við kynbundna og kynferðislega áreitni, einelti og aðra ótilhlýðilega framkomu. Jafnframt að það sé skylda hvers og eins þingmanns að hafna slíku hátterni og að þingmenn skuli ekki sýna öðrum þingmönnum, starfsmönnum þingsins eða gestum kynferðislega áreitni eða ofbeldi af neinu tagi eða aðra vanvirðandi framkomu.

Þó að Alþingi sé ekki hefðbundinn vinnustaður sem sætir stjórn tiltekins vinnuveitanda eiga markmið, sem búa að baki jafnréttis- og vinnuverndarlöggjöf um að gera fólki kleift að sinna starfi sínu án þess að eiga á hættu að þurfa að þola kynferðislega áreitni og stuðla þannig að öruggu og heilbrigðu starfsumhverfi, jafn vel við um alþingismenn sem og starfsmenn og gesti þingsins og aðra. Því er nauðsynlegt að skýrlega liggi fyrir hvernig eigi að fyrirbyggja og bregðast við kynferðislegri áreitni á Alþingi, ekki síður en á venjulegum vinnustöðum.

Í tillögunni er slík háttsemi þó ekki bundin við húsakynni Alþingis heldur á hún við um hátterni hvar sem alþingismenn eru að störfum sem slíkir, m.a. á fundum utan Alþingis og það jafnt innan lands sem utan. Í tillögunni felst að á eftir c-lið 1. mgr. 5. gr. siðareglnanna komi nýr stafliður um að alþingismenn skuli sem þjóðkjörnir fulltrúar leggja sig fram um að skapa í störfum sínum heilbrigt starfsumhverfi innan þings sem utan og hvarvetna þar sem þeir sinna störfum sínum þar sem hafnað er hvers konar kynferðislegri eða kynbundinni áreitni, einelti eða annarri vanvirðandi framkomu. Jafnframt er lagt til að í þeim hluta siðareglnanna sem fjallar um hátternisskyldur komi ný grein um að þingmenn skuli ekki sýna öðrum þingmönnum, starfsmönnum þingsins eða gestum kynferðislega eða kynbundna áreitni, leggja þá í einelti eða koma fram við þá á annan vanvirðandi hátt.

Markmið breytinganna er að það komi fram með skýrum hætti að gildandi siðareglum alþingismanna er ætlað að stuðlað að öruggu og heilbrigðu starfsumhverfi innan þings þar sem hvers konar áreitni, kynferðislegri eða kynbundinni, og annarri vanvirðandi framkomu er afdráttarlaust hafnað. Er þá vísað til hátternis þingmanns gagnvart öðrum þingmönnum, starfsmönnum Alþingis og gestum í starfi hans á Alþingi eða á vegum þess sem þjóðkjörins fulltrúa.

Verði tillagan samþykkt er gert ráð fyrir því að reglur forsætisnefndar um meðferð erinda og málsmeðferð samkvæmt siðareglum fyrir alþingismenn verði síðan endurskoðaðar og samin sérstök viðbragðsáætlun á grundvelli þeirrar vinnu.

Loks er tekið fram í tillögunni að eftir samþykkt hennar skuli forsætisnefnd fella breytingarnar inn í gildandi siðareglur og birta þær svo breyttar á vef Alþingis.

Ég legg til, hæstv. forseti, að mál þetta gangi að lokinni umræðunni til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.