148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

siðareglur fyrir alþingismenn.

443. mál
[15:22]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er aldeilis laukrétt hjá hv. þingmanni að þessar reglur eru reglur þeirrar gerðar að við vonumst til þess að það reyni sem sjaldnast, og helst aldrei, á þær. Ég er líka sammála því, og hefði kannski mátt bæta því við í fyrra svari við fyrra andsvari, að þar skiptir miklu máli að kynna reglurnar og að allir eigi hlutdeild í þeim. Það er ekki nóg að hripa nafn sitt á blað að óathuguðu máli og án þess að þekkja innihald reglnanna, að þar með sé vandinn leystur. Við þurfum helst að tryggja að allir hv. þingmenn séu vel upplýstir um reglurnar, þekki til þeirra og að þær séu kynntar og eftir atvikum rifjaðar upp með reglubundnum hætti. Nú er augljóst að frá og með því að þær koma til sögunnar er kynning á þeim hluti af þeirri kynningu sem nýir þingmenn fá við upphaf hvers kjörtímabils þegar þeir fara á hið mikla námskeið „Háttvirtur þingmaður“, eða hvað það nú heitir. En það má líka hugsa sér að gera betur í þeim efnum. Það bar einmitt á góma hér, í okkar ágætu umræðum fyrr í vetur, þegar við héldum hér rakarastofuatburðinn, og á þetta hafa fræðimenn lagt áherslu, að reglurnar þurfa að vera lifandi í hugum þeirra sem starfa eftir þeim. Þá er meiri von til þess en ella að ekki reyni á þær.