148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

siðareglur fyrir alþingismenn.

443. mál
[16:32]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Við höfum sett okkur siðareglur. Í greinargerð tillögunnar sem hér er til umræðu, um breytingu á siðareglum fyrir alþingismenn, segir, með leyfi forseta:

„Tilgangur siðareglna fyrir alþingismenn er að efla gagnsæi í störfum alþingismanna og ábyrgðarskyldu þeirra, svo og tiltrú og traust almennings á Alþingi. Í þessu felst jafnframt að stuðla að heilbrigðu starfsumhverfi þjóðkjörinna fulltrúa og um leið að þingmenn beri virðingu fyrir starfi sínu, samherjum sínum og mótherjum og öðrum, þar með talið þeim sem erindi eiga inn á starfsvettvang þeirra og gagnvart þeim sem þingmenn eiga samskipti við í störfum sínum utan þings. Það er því eðlilegt og réttmætt, í ljósi þeirra krafna sem fram hafa komið, að í siðareglum fyrir alþingismenn komi fram sú meginregla að þingmenn skuldbindi sig til þess að leggja sitt af mörkum til að skapa heilbrigt starfsumhverfi innan þings sem utan, sem sé laust við kynbundna og kynferðislega áreitni, einelti og aðra ótilhlýðilega framkomu. Jafnframt að það sé skylda hvers og eins þingmanns að hafna slíku hátterni og að þingmenn skuli ekki sýna öðrum þingmönnum, starfsmönnum þingsins eða gestum kynferðislega áreitni eða ofbeldi af neinu tagi, eða aðra vanvirðandi framkomu.“

Í hinum fullkomna heimi þyrftum við ekki á svona reglum að halda en við erum breysk og þurfum að setja okkur ramma og hafa vinnureglur. Það var ákveðið skref sem við stigum með því að undirrita þessar siðareglur en eftir að við héldum hér alveg hreint prýðisgóðan dag og góða ráðstefnu sem spratt upp úr #metoo-átakinu varð þessi tillaga til og ég fagna framkomu hennar. Þessi dagur í þinginu sem hæstv. forseti okkar stóð fyrir kom mér mjög skemmtilega og ánægjulega á óvart. Það að við skyldum geta setið hér heilan dag og átt svona gagnlegar og góðar umræður var alveg hreint einstakt. Þar kom flokkapólitík málinu ekkert við. Við ræddum saman þvert á flokka, gátum verið opin og einlæg og tjáð okkur upp að því marki sem hver og einn kaus. Það finnst mér dýrmætt.

Umræðan sem hefur átt sér stað hér segir okkur kannski að við þurfum að ætla okkur rými í störfum þingsins til að takast á við þessi mál og ræða þau alveg til hliðar við pólitíkina og allt annað. Ég held að við séum öll ágætismanneskjur. Öll viljum við vera almennilegt fólk og allar almennilegar manneskjur hafa það að leiðarljósi að beita ekki aðra ofbeldi. Það á að vera algjörlega skýrt. Einhvern veginn virðist samt stundum koma einhver fölvi á það og þá þurfum við að hjálpa hvert öðru inn á rétta braut í þeim efnum. Ég hef fulla trú á að það eigum við að geta gert hér, tekið okkur saman um að vinna þessu máli framgang. Ég vil að það komi hér fram að ég fagna framkomu þessa erindis og hlakka til að fá að takast á við það í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Í því eru margir punktar sem við getum velt upp. Ég ætla ekki að fara í þá umræðu hér hvenær mér líður eins og þingmanni og hvenær ekki. Ég held að þetta starf heltaki okkur og við erum bara þingmenn meðan við erum það. Það gildir ekkert ein hegðun milli klukkan eitthvað ákveðið á kvöldin eða morgnana eða hvenær sem það er. Við eigum alltaf að vera a.m.k. foreldrum okkar til sóma og meðan okkur tekst það hljótum við að vera vinnustaðnum okkar til sóma.

Ég tek undir að við þurfum að skoða hvort sömu reglur eigi ekki að gilda um varaþingmenn þegar þeir koma hingað inn. Um leið og við skrifum undir drengskaparheitið erum við að undirgangast þessar reglur. Varðandi siðareglur hefur það sjónarmið oft komið fram að þær sé ekki hægt að setja um hópa heldur verði hóparnir að setja sér þær. Þess vegna held ég að við ættum oftar að taka okkur tíma í að ræða þessi mál og takast á um álitamálin en ég veit að við erum fullburðug til þess. Ég hlakka til vinnunnar áfram og fagna framkomu þessa frumvarps.