148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

Kristnisjóður o.fl.

269. mál
[17:41]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún leggur ríka áherslu á ákvörðunarrétt sveitarfélaga. Ég get tekið undir það að það er mikilvægt að sveitarfélögin séu ekki þvinguð til að gefa verðmætar lóðir. Það sem vefst fyrir mér er að við séum að taka þessa umræðu þegar Ísland er að verða fjölmenningarsamfélag. Þegar við erum að fara í átt til meiri fjölbreytileika, sem við ættum að fagna, þegar fleiri söfnuðir fara að starfa hér, þá segjum við: Nei, heyrðu, hingað og ekki lengra, nú fá trúfélög ekki fríar lóðir og þetta gengur ekki svona, það er allt of mikil fjölbreytni í þessu. Eftir stendur þjóðkirkjan með mjög sterka stöðu.

Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson talaði mikið um jafnræðisregluna í stjórnarskránni o.s.frv. Ég skil alveg um hvað það fjallar. En þegar við horfum á trúfélögin, og að ekki megi mismuna eftir trúarskoðunum og það skipti máli að allir fái að njóta sín og allir sitji við sama borð þegar kemur að trúarskoðunum og störfum söfnuða, þá á að segja: Nei, við getum ekki staðið í þessu af því að fjölbreytnin er svo mikil, um leið og við fögnum henni.