148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

Kristnisjóður o.fl.

269. mál
[18:24]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Fyrst af öllu langar mig að lyfta upp lögum um Kristnisjóð. Ég er nokkur áhugamaður um lögfræðilega fagurfræði og mér finnst alltaf áhugavert þegar ég sé gömul lög eins og þessi sem eru orðin eins og gatasigti af því að hér er búið að nema brott 1.–4. gr., það var gert 1990, sama ár hurfu 6.–10. gr., fimm árum áður höfðu horfið 11.–13. gr., 14.–17. gr. eru horfnar og hluti af 20. gr. Nú er lagt til að sú 5. hverfi þannig að á endanum verður ansi lítið eftir af þessum lögum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það var samt ekki þetta sem ég ætlaði að gera að aðalumtalsefni mínu.

Mér hefur þótt umræðan mjög skemmtileg. Þetta er mál sem hreyfir við ýmsum spurningum sem ná miklu víðar en frumvarpið sjálft. Mér finnst líka áhugaverður hinn vandrataði vegur sem er í málinu, að við getum rætt það af virðingu fyrir trúfélögum og skoðunum fólks sem þessi lög koma til með að hafa áhrif á, hvort sem það eru félög múslima sem lentu í því að þeim var reist níðstöng með svínshöfði á lóð sem þeim hafði verið úthlutað eða trúfélög kristinna sem sjá fram á að þurfa mögulega að borga gatnagerðargjöld af fjölda lóða sem þau höfðu aðrar forsendur til að taka við þegar þannig stóð á. Þetta er alls ekki einfalt mál, en nokkuð sem ég hlakka til að takast á við innan allsherjar- og menntamálanefndar. Fer það ekki þangað, forseti?

(Forseti (ÞorS): Væntanlega, jú.)

Ég reikna með því. Þar er eitt atriði sem ég myndi vilja skoða sem ég hafði ekki áttað mig á fyrr en ég fór aðeins að skoða þetta frumvarp og það er umfangið. Eins og ég vék að í andsvari við hv. þm. Björn Leví Gunnarsson fengum við nasasjón af fjárhagslegu umfangi þessara laga í svari við fyrirspurn frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur um lóðir fyrir trú- og lífsskoðunarfélag. Þar kom fram að tvær nýjustu kirkjur landsins hefðu fengið niðurfelld gatnagerðargjöld upp á tugi milljóna, Guðríðarkirkja upp á 15,1 milljón og Lindakirkja upp á 29,1 milljón þannig að fyrir hverja einustu byggingu er þetta gríðarlegur startkostnaður sem er felldur niður. Þar að auki er hinn viðvarandi afsláttur varðandi lóðarleiguna sem félögin fá sem kemur niður á rekstrartekjum sveitarfélaga. Fyrir þessar tvær kirkjur var áætlað að leigan væri á bilinu 345.000–372.000. Í landinu eru á fjórða hundrað kirkjur. Ef við bara margföldum þetta saman þýðir það væntanlega einhverja tugi milljóna sem sveitarfélögin verða af í lóðarleigu miðað við að þau hefðu sjálf kosið að rukka trúfélögin fullu verði. Þetta er mögulega heilmikið hagsmunamál fyrir sveitarfélögin sem eiga í hlut, en að sama skapi að sjálfsögðu fyrir trúfélögin sem ekki hafa gert ráð fyrir þessum kostnaði.

Ýmis skemmtileg orð hafa verið látin falla. Ég ætla ekki að gera mikið úr mismælum Hönnu Katrínar Friðriksson sem talaði um trú- og lífsskoðunarfyrirtæki, [Hlátur í þingsal.] við látum það liggja á milli hluta, enn skemmtilegra fannst mer orðið samkeppnisforskot sem hv. þm. Hildur Sverrisdóttir notaði um þau trúfélög sem þegar hafa fengið úthlutað lóðum sem hafa þar með forskot á önnur trúfélög sem koma síðar á markaðinn og þurfa mögulega að kaupa lóðir fullu verði. Það rifjaðist upp fyrir mér frétt sem birtist á haustdögum af því að kirkjur og trúfélög fái ekki úthlutað hvaða lóðum sem er. Þetta eru yfirleitt nokkuð voldugar og fínar byggingar sem þurfa stóra lóð á dálítið flottum stað, kannski uppi á hæð, kannski þar sem þær blasa við úr fjarska. Ef hin hreinu markaðslögmál réðu væru þetta væntanlega mjög dýrar lóðir sem sést t.d. á því — og hér er ég kominn að punktinum frá því í haust þar sem birtist frétt í Fréttablaðinu 17. nóvember sl. um að turninn malaði gull í sjóði Hallgrímskirkju. Kirkjur hafa nefnilega aðdráttarafl, bæði vegna þess að það er dálítið mikið í þær lagt, þetta eru oft byggingarsöguleg meistaraverk, en líka vegna þess að þær eru vel staðsettar og þær eru með turn þaðan sem er gott útsýni. Hallgrímskirkja hefur ekki farið varhluta af ferðamannastraumi síðustu ára, árið 2016 voru tekjur af turni Hallgrímskirkju 238 millj. kr.

Þetta er heilmikil búbót fyrir sóknina og þetta er væntanlega hærri upphæð en sem nemur þeim niðurfelldu lóðarleigugjöldum sem sveitarfélögin gefa eftir fyrir allar kirkjur á landinu, mögulega margfalt það. Þetta er annað sem ég reikna með að við munum taka til skoðunar í nefndinni.

Okkur hættir alltaf til að renna út í næstu umræðu þegar við ræðum þessi mál, ég er t.d. búinn að nefna kirkjujarðasamkomulagið og það heilmikla óuppgerða sem er á milli ríkis og kirkju, sem ég held að endurspeglist í því að lög um kirkjuna eru oftar en ekki gatasigti af því að heildarendurskoðun á sér aldrei stað af því að hún er svo umfangsmikil og þung í vöfum að ekki hefur verið lagt í hana. Ég held að það sé full ástæða fyrir okkur að fara að ræða það hvernig hægt sé að hlúa að trúfélögum og lífsskoðunarfélögum eins og öðrum félagasamtökum sem starfa í almannaþágu, sem starfa að menningarmálum, eins og við viljum koma íþróttafélögum undir eitthvert þak. Það er heill mýgrútur af félögum sem er full ástæða fyrir hið opinbera að styðja og styrkja. Væri ekki hreinlegra að sömu reglur eða svipaðar næðu utan um öll félögin frekar en að við séum með sérstakar reglur um lóðaúthlutanir til þessarar tegundar félagasamtaka meðan önnur félagasamtök sitja ekki við sama borð? Er eðlilegt að ríkið innheimti félagsgjöld fyrir trúfélög en ekki knattspyrnufélög? Það er önnur spurning um jöfnuð sem þessu máli er ekki ætlað að takast á við en það er umræða sem ég held að sé full ástæða fyrir okkur til að hefja. Mér sýnist á hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni að hann sé alveg til í það samtal og ég reikna með að við kannski eigum það einhvern tímann á næstu löggjafarþingum.