148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

287. mál
[19:13]
Horfa

Fjölnir Sæmundsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér sýnist á öllu að þetta ágæta frumvarp sem er sagt snúast um áfengi og tóbak snúist að litlu leyti um áfengi heldur aðallega um viðskiptafrelsi. Ég held að það sé í boði Samtaka verslunar og þjónustu.

Það sem vakti athygli mína er að í skýringu við 14. gr. í frumvarpinu er rætt um heimild til að selja áfengi í smásölu. Þar segir:

„Lagt er til að meginreglan verði sú að heimilt verði að selja áfengi í smásölu í sérverslunum með mat- og drykkjarvörur sem og sérverslunum með áfengi en ekki í stórmörkuðum og matvöruverslunum.“

Ég verð að viðurkenna að ég skil bara ekki hvaða búðir þetta eru sem selja mat- og drykkjarvörur en eru ekki matvöruverslanir. Hvers konar verslanir selja matvörur en eru ekki matvöruverslanir? (Gripið fram í: Þetta eru stórmarkaðir.) Það stendur „en ekki í stórmörkuðum og matvöruverslunum“ sem er þá sitt hvort. Ég get ekki betur séð en að þetta sé fyrsta skrefið til að stórmarkaðir fari að selja (Forseti hringir.) áfengi. Næstu rök verða í nafni viðskiptafrelsis. Getum við bannað stórmörkuðum að selja áfengi fyrst aðrar búðir fá að gera það?