148. löggjafarþing — 58. fundur,  2. maí 2018.

hvalveiðar.

[15:04]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Árið 2015 samþykktu Vinstri græn friðun hvala, þ.e. Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur verið með þá stefnu að vera á móti hvalveiðum. Því vil ég í fyrsta lagi spyrja forsætisráðherra hvort eitthvað hafi breyst í stefnu flokksins. Eru Vinstri græn enn á móti hvalveiðum?

Í öðru lagi: Munu Vinstri græn beita sér innan ríkisstjórnar til að stöðva nýjar veiðar stórhvela sem munu hefjast núna í júní, m.a. veiðar á allt að 209 langreyðum sem eru næststærsta núlifandi dýrategundin og er á alþjóðlegum válistum? Ætla Vinstri græn að beita áhrifum sínum innan ríkisstjórnar til að stöðva veiðarnar?

Í þriðja lagi: Styðja Vinstri græn endurmat á stefnu Íslands þegar kemur að hvalveiðum og munu þau beita sér fyrir slíkri endurskoðun? Ég vil vekja athygli hæstv. forsætisráðherra á því að það liggur fyrir þingsályktunartillaga á þinginu um það efni.

Munu Vinstri græn sem sagt beita sér fyrir því innan ríkisstjórnar að þeirra eigin stefnu í hvalveiðum verði fylgt eftir eða ætla þau einfaldlega að sitja hjá og láta veiðarnar hefjast núna í júní?