148. löggjafarþing — 58. fundur,  2. maí 2018.

bygging leiguíbúða.

[15:20]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að setja hér mikilvæg mál á dagskrá þó að ég hljóti nú að leiðrétta ýmsar þær forsendur sem hann gaf sér í fyrirspurn sinni. Hv. þingmaður talar um skattstefnu sem auki ójöfnuð. Ég leyfi mér að minna hv. þingmann á að þær skattkerfisbreytingar sem ráðist var í í fyrstu fjárlögum þessarar ríkisstjórnar voru annars vegar hækkun á fjármagnstekjuskatti um 10%, um 2 prósentustig, hv. þingmaður ætti nú að þekkja vel að sú skattahækkun bitnar fyrst og fremst á þeim sem mest fjármagn eiga í samfélaginu. Hv. þingmaður ætti að þekkja það vel og halda því til haga að þegar um er að ræða ójöfnuð og jöfnuð í samfélaginu birtist ójöfnuðurinn einna helst í eignadreifingu, ekki tekjudreifingu.

Við höfum hins vegar rætt um tekjudreifingu og er full ástæða til þess að ræða hana í þessu sambandi. Þá vil ég koma að því sem hv. þingmaður vísaði til, þ.e. skattkerfisbreytingum. Jú, boðuð er skattalækkun í fjármálaáætlun. Þar er líka boðað samráð við verkalýðshreyfinguna, heildarsamtök launafólks í landinu um það hvernig útfæra megi þá skattalækkun þannig að hún gagnist best hinum tekjulægri og lægri millitekjuhópum og sérstaklega verði skoðað samspil við það sem hv. þingmaður nefnir líka, bótakerfin, þ.e. barnabætur og húsnæðisstuðning. Þetta samráð er að fara af stað og verður vonandi lokið í haust fyrir framlagningu næsta fjárlagafrumvarps. Það kom fram í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga í vor.

Við héldum upp á baráttudag verkalýðsins í gær og þar komu ýmsar kröfur fram. Ég vil segja að ég lít á verkalýðshreyfinguna sem svo að hún eigi að vera samherji okkar í stjórnmálunum um þær félagslegu úrbætur sem gera þarf. Ég vil ekki líta á það fólk sem andstæðinga heldur eigum við einmitt að fylgja því sem við höfum lagt grunninn að á fyrstu mánuðum þessarar ríkisstjórnar. Síðasti fundur stjórnvalda með aðilum vinnumarkaðarins var á föstudaginn. Þeir hafa verið mánaðarlega frá því að ríkisstjórn mín (Forseti hringir.) tók við. Þar erum við þegar farin að sjá árangur aðgerða.

Það sem ég held að skipti hins vegar mestu máli er að förum við að skoða hvernig Alþingi getur komið meira inn í þá stefnumótun til lengri tíma ásamt aðilum vinnumarkaðarins.