148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kjör ljósmæðra.

[11:51]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil enn og aftur þakka hv. þingmanni fyrir að hafa frumkvæði að þessari umræðu og ekki síst fyrir hvatningu hans í lokaorðum.

Við deilum því öll hér, hv. þingmenn sem hafa tekið þátt í þessari umræðu, að við höfum skilning á mikilvægi þess starfs sem er hér til umfjöllunar. Ég vil samt líka taka undir þau orð sem komu fram hjá hv. þm. Þorsteini Víglundssyni undir lok umræðunnar, að við þurfum að gæta að því að það að leysa þessa deilu leysir ekki hið stóra og aðkallandi verkefni sem er kynskiptur vinnumarkaður og kynbundinn launamunur. Við þurfum að ná og vinna áfram á grundvelli sameiginlegs skilnings um það að við þurfum að setja kvennastéttir í forgang. Það er viðfangsefni sem við verðum að axla, en við verðum líka að átta okkur á því að deilan sem núna stendur yfir varðandi kjör ljósmæðra þolir ekki þá bið heldur þarf að leysa í sjálfu sér.

Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir nefndi þætti sem lúta að breytingu á lyfjalögum. Ég er sammála því. Þegar við tölum um að hugsa út fyrir boxið þurfum við að hugsa um bæði stórt og smátt, við þurfum að hugsa um það með hvaða hætti við getum í verki, í löggjöfinni og í framkvæmdinni sýnt að við treystum og virðum þessa mikilvægu stétt.

Að lokum vil ég segja að það er gríðarlega mikilvægt að ná niðurstöðu fljótt í þessu tiltekna máli. Staðan er nú þegar alvarleg á Landspítalanum og verður alvarlegri með hverjum deginum sem líður. Staðan er þannig. Við getum náð niðurstöðu í þessari stöðu og við eigum að gera það. Ég mun leggja mitt af mörkum til að svo megi verða. Það væri mér auðvitað sérstakt gleðiefni ef það gæti orðið á laugardaginn kemur, (Forseti hringir.) á alþjóðlegum degi ljósmæðra.