148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

tollasamningur ESB og Íslands um landbúnaðarvörur.

[13:45]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Birgi Þórarinssyni, fyrir að hefja þessa umræðu. Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að öll viljum við sjá öflugan og traustan landbúnað á Íslandi. Við erum stolt af íslenskum landbúnaðarvörum og öll segjum við sögur af því hversu hreinn og grænn íslenskur landbúnaður er þegar við fáum tækifæri til þess. Það er því í mínum huga mjög mikilvægt að við styðjum vel við íslenskan landbúnað og uppbyggingu hans, en ég verð að viðurkenna að ég tel að beiting tolla sé alls ekki besta leiðin til þess.

Herra forseti. Satt best að segja hef ég aldrei skilið almennilega að bændur séu ekki einmitt stærsti þrýstihópurinn í því að Ísland gangi í Evrópusambandið enda ófáir sem leggja jafn mikið í landbúnaðarmál og Evrópusambandið. Ég bjó til að mynda í Skotlandi um tíma og hitti þar m.a. bændur í Hálöndunum sem voru mjög ánægðir einmitt með þau tækifæri til nýsköpunar og bættrar nýtingar lands síns sem Evrópusambandið hafði fært þeim með beingreiðslum og grænum styrkjum.

Það eru fáar atvinnugreinar jafn mikilvægar fyrir okkur Íslendinga og landbúnaður og þar eru mikil sóknarfæri. Mikilvægt er að styðja vel við landbúnað til að mynda með því að endurskoða búvörusamninga með það að markmiði að bæta kjör og aðstæður bænda, en sömuleiðis að tryggja neytendum sanngjarnt verð og gæði. Þannig þarf að draga úr samtengingu framleiðslu og stuðnings ríkisins og færa stærri hluta stuðningsins við landbúnað til sjálfbærrar nýtingar landsins.

Samfylkingin leggur áherslu á að styrkjaumhverfi landbúnaðarins tryggi rekstraröryggi og afkomu bænda og að rekstrarumhverfi landbúnaðarins sé með þeim hætti að það styrki byggðir, auki frelsi bænda og leiði af sér hagkvæma og vistvæna gæðaframleiðslu. En það tryggjum við ekki með endalausum verndartollum, heldur einmitt með því að styðja bændur beint og við landbúnað.