148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

tollasamningur ESB og Íslands um landbúnaðarvörur.

[13:47]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er ljóst að í þeim tollasamningi sem hér er til umræðu felast bæði tækifæri og áhætta. Tækifærin liggja í stórauknu aðgengi íslenskra afurða, skyrs, lambakjöts, tollfrjálst inn í Evrópusambandið. Er það sérstaklega mikilvægt í tilfelli skyrsins fyrir íslenska kúabændur en umframframleiðsla hefur verið flutt út í formi dufts þegar tollkvótar skyrs hafa klárast með tilheyrandi tekjutapi fyrir kúabændur.

Í tilfelli lambakjötsins er það mikilvægt í ljósi alvarlegrar stöðu sauðfjárbænda sem rétt er að minna á hér. Ef sauðfjárræktin á ekki að minnka verulega að umfangi þarf að finna aukinn markað fyrir það kjöt. En það er líka áhætta fyrir svína- og alifuglaræktendur, fyrir kúabændur og óbeint fyrir sauðfjárbændur líka. Það er rétt að minna á að kúabændur eru í hálfgerðri spennitreyju í núverandi kerfi. Verðlagsnefnd ákveður verð á stærstu tekju- og gjaldaliðum. Stundum líða mörg ár á milli ákvarðana en síðast var heildsöluverði á mjólk breytt 1. janúar 2017.

Stórir vöruflokkar eru seldir undir hráefniskostnaði og því verður afurðafélag bænda að selja aðrar vörutegundir, þar á meðal sérosta, á hærra verði til að dekka þann kostnað. Þetta kerfi á sér djúpar rætur í kjarabaráttu bænda fyrr á árum.

Ég ætla að beina spurningum til ráðherra. Sér ráðherra fyrir sér að það geti verið hluti af því að takast á við áskoranir sem felast í tollasamningnum að breyta fyrirkomulagi verðlagsnefndar, líkt og kveðið er á um í búvörusamningum frá 2016? Hver er hin pólitíska sýn ráðherra á það hvernig skuli breyta? Einnig: Hver er hin pólitíska sýn ráðherra á magntolla þeirra vörutegunda sem enn bera toll? Í 13. gr. samningsins um starfsskilyrði nautgriparæktar frá 2016 er talað um að landbúnaðarráðherra (Forseti hringir.) beiti sér fyrir því að magntollar á undanrennudufti og ostum verði uppfærðir til að endurspegla breytingar á verðlagi (Forseti hringir.) síðan þeir voru settir á.