148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

tollasamningur ESB og Íslands um landbúnaðarvörur.

[14:19]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka sömuleiðis þá umræðu sem hér hefur átt sér stað. Menn hafa komið allvíða við í sínum ræðum, svo að það sé sagt. Það er rétt hjá hv. málshefjanda að margt hefur breyst frá því að samningurinn var undirritaður. Það er hárrétt. Það hafa meðal annars orðið skipti í pólitíkinni og menn líta veröldina kannski öðrum augum en þeir gerðu hér fyrr á tíð.

Ég vil svara í örstuttu máli þeim spurningum sem til mín hefur verið beint. Varðandi það sem Kolbeinn Óttarsson Proppé spurði um: Já, ég tel vel koma til greina að skipa þennan starfshóp, tvímælalaust. Varðandi fyrirspurn Lilju Rafneyjar um verðlagsnefnd: Ég tel fulla ástæðu til að fara vel í gegnum þetta verðlagningarkerfi. Það er alveg augljóst að reynslan af því sl. tvö ár er alls ekki nægilega góð og er ómögulegt að setja hluta heillar atvinnugreinar í þá klemmu sem hún hefur lent í út frá einhverjum pólitískum sviptivindum sem þarna komu upp.

Mönnum hefur orðið tíðrætt um að það séu breyttar forsendur út af Brexit. Þangað inn á hafi skyrkvótanum verið ætlað að fara. Dettur mönnum í hug að menn hætti að éta skyr þó að Bretar gangi úr Evrópusambandinu? Það er einfaldlega verkefnið að semja þá við Breta um áframhaldandi aðgengi að þessari gæðavöru. Ég hef fulla trú á því að bændur hér á Íslandi séu að vinna mjög góða vinnu, í garðyrkjunni, mjólkinni, hrossum, kjúklingum, svínum. Erfiðleikarnir eru í sauðfénu en í flestum öðrum greinum er unnin frábær vinna og besta leiðin til að styrkja þetta enn frekar er að efla og ýta undir stuðning og styrk neytenda í samstarfi við bændur. Það eru full færi til þess. Ég hef fulla ástæðu til að ætla að í tengslum við endurskoðun, sem stendur yfir á búvörusamningunum, muni menn ná mjög miklum og góðum áföngum og styrkja það umhverfi sem íslenskum landbúnaði er ætlað að starfa í á komandi árum. Ég hef fulla trú á því og vænti þess að tillögur (Forseti hringir.) þar að lútandi muni líta dagsins ljós út úr því nefndarstarfi öðrum hvorum megin við næstu áramót.