148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[14:43]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal reyna að koma því að í dag að reikna líka út frá árinu 1989. Ég efast ekki neitt um það sem hv. þingmaður segir mér, ég hugsa að það sé bara dagsatt, hef ekki reynslu af öðru hingað til.

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann út í það sem hann nefndi varðandi launavísitöluna. Hann spurði: Hver er á verðtryggðum launum? Aftur miða ég við hrunið og tölur mínar ná einungis aftur til 2008. Kannski er hv. þingmaður með aðrar tölur í því efni en ég fæ ekki betur séð út frá mínum flýtireikningum en að launavísitalan hafi hækkað um 92% 2008–2018, á meðan vísitala hækkaði um 58,3% og vísitala án húsnæðisliðar hækkaði um 53,1%. Það er umtalsvert meiri hækkun á launum í landinu en á neysluverði því að kaupmátturinn hefur aukist. Af einhverjum ástæðum eru stjórnvöld alltaf að gorta sig af þessu en auðvitað er þetta samspil margvísandi þátta. (Forseti hringir.)

Þá langar mig að spyrja, bara þannig að hv. þingmaður fái tækifæri til að svara því: Telur hann að heimilin í landinu væru betur sett ef verðtrygging væri eftir launavísitölu en ekki neysluverðsvísitölu?