148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[15:56]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kýs að ítreka hér og draga enn betur fram þá nauðhyggju sem einkennir allan hans málflutning. Ég verð að leyfa mér að segja að það hljómar ekki sérstaklega trúverðugt í máli hv. þingmanns þegar hann lýsir sjálfum sér, ef ég tók rétt eftir, sem svörnum andstæðingi verðtryggingar um leið og hann heldur henni fram af slíku kappi að jafnvel Samfylkingin má vara sig í þeirri samkeppni.

Herra forseti. Auðvitað gerir hv. þingmaður sér grein fyrir því að hér er alvarlegur skortur á samkeppni og það litar alla starfsemi og það litar allar þessar vaxtaákvarðanir og allan þennan vaxtakostnað. Hv. þingmaður leyfir sér það, (Forseti hringir.) hafandi mikla þekkingu á þessum þáttum, að líta algjörlega fram hjá þeim og minnist ekki á þá í málflutningi sínum og tekur ekki einu sinni til greina þær ábendingar sem fram hafa komið um þetta efni.