148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[15:58]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni kærlega fyrir þessa ræðu. Þetta var evruræðan svokölluð, hún hefur verið flutt hér allmörgum sinnum. Með þægilegri æfingu geri ég ráð fyrir að í fyllingu tímans muni ég læra hana utan að og vonast til þess. En ástæða þess að ég fer hér upp er sú að hagfræðingar eru ekki á eitt sáttir um hvort skipta þurfi um gjaldmiðil til þess að ná fram almennilegu vaxtastigi. Mig langar að vitna í einn ágætan doktor í hagfræði, Ólaf Margeirsson, með leyfi hæstv. forseta. Hann segir:

„Ekki þarf að taka upp annan gjaldmiðil á Íslandi sé vilji til þess að lækka vaxtastig hér einfaldlega vegna þess að grunnvaxtastigið er ákvarðað af Seðlabanka Íslands.“

Hann tekur dæmi af því hvernig stýrivextir í Svíþjóð hafa lækkað yfir tíma, úr því að vera mjög háir niður í það að vera mínus 0,5%. Þessi ágæti hagfræðingur heldur því fram, og reyndar fleiri með honum, að okkur sé ekkert að vanbúnaði að lækka hér vexti þrátt fyrir krónu með því að koma á alvöruhagstjórn. Þess vegna langar mig að heyra um þetta.

Ég veit að það er keppikefli hv. þingmanns að koma okkur inn í Evrópusambandið þannig að við verðum einn lítill hreppur þar. En mig langar samt til þess að biðja hann að svara mér um það hvort hann telji að þessir hagfræðingar, sem ég vitna til, séu á villigötum með það að hægt sé að ná árangri í að lækka vexti með íslenskri krónu.