148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[16:05]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir þessa prýðisræðu. Hann kemur sér beint að hlutunum. Við ræðum hér þingsályktunartillögu, svo að því sé til haga haldið, sem snýr að því að meta forsendur við útreikninga verðtryggingar, þ.e. þessa reikniformúlu, grundvöllinn að baki þeirri verðtryggingu sem ákveðin er í lánasamningum.

Hv. þingmaður vék sér beint að því sem hann kallar rót vandans, sem er að það kostar vissulega að reka hér sjálfstæða mynt og sjálfstæða peningastefnu. Um það er ekki deilt. En ef við bara gefum okkur — af því að það virðist nú vera þannig að þetta er jafn erfið umræða og verðtryggingin sjálf, en hv. þingmaður metur það sem svo að kostnaður sé við að halda úti sjálfstæðri mynt — í þessu ýtrasta dæmi að við séum tilbúin að leggja í þann kostnað fyrir einhvern ávinning; hærra atvinnustig, aðlögunarhæfni hagkerfisins, gefum okkur það. Við verðum þá að vera stöðugt að meta bestu mögulegu lausnir með þau tæki sem við höfum í tengslum við sjálfstæða peningastefnu og útfærslu hennar.

Spurningin er, miðað við þær aðstæður sem við höfum valið, hvort við verðum ekki að meta þetta eins og við erum að gera hér í einhverju skrefi; markmiðið að neytandinn eigi val um þetta.