148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:01]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Þá tökum við aftur til þar sem frá var horfið í umræðu um mál sem snýr að því að lækka kosningaaldur til sveitarstjórnarkosninga úr 18 árum í 16. Málið var allmikið rætt fyrir nokkrum vikum en ekki varð niðurstaða þá og mér sýnist í fljótu bragði hvað rök málsins varðar að fátt hafi breyst.

Það sem ég hef gert í millitíðinni, að skoðuðu því sem þá kom fram og með frekari gagnaöflun í tengslum við þau atriði sem málið snýr að, er að ég hef lagt fram frávísunartillögu eins og það er skilgreint, þ.e. tillögu um að málinu í heild verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Þetta er mál þeirrar gerðar að umfang þess er verulegt. Það eru allmörg dæmi þess að menn hafi farið í þessa vegferð annars staðar og með vægast sagt misjöfnum árangri m.a. hvað kosningaþátttöku ungs fólks varðar. Ég held að þetta mál sé þeirrar gerðar að það sé ábyrgðarhluti að ætla í rauninni að klára það eins og það er lagt fram. Nú liggur fyrir að þetta er ekki fær leið og verður ekki viðmiðið í þeim sveitarstjórnarkosningum sem nú eru fram undan, en það eru rétt rúm fjögur ár þar til næstu sveitarstjórnarkosningar ganga í garð og ég held að það að vísa málinu til ríkisstjórnar til dýpri umræðu sé málinu og efnisatriðum þess hollt.

Nú liggur fyrir breytingartillaga frá hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé um að gildistöku verði frestað til 1. júní. Er það ekki rétt munað hjá mér? Þingmaðurinn kinkar kolli. Verði niðurstaðan sú þá hefur það engin áhrif á fyrstu kosningar sem þessi regla verður í gildi ef af verður, hvort heldur sem breytingartillaga hv. þingmanns Kolbeins Óttarssonar Proppé verður samþykkt eða tillaga mín um að vísa málinu til ríkisstjórnar.

Það eina sem gerist er að með því að vísa málinu til ríkisstjórnar gefst miklu meira svigrúm til að vinna málið betur og taka upplýstari ákvörðun um hvort það sé yfir höfuð rétt að breyta þessu og hvort við eigum ekki, ef við tökum þessa ákvörðun, að taka fleiri þætti undir í þessari nálgun. Það sem ég á við er að skoða sjálfræðisaldurinn, fjárræðið og fleiri þætti sem eru aldursbundnir, í staðinn fyrir að vera að taka út eitt atriði sem er mjög sérvalið. Umræðan í fyrri hluta 3. umr. benti til þess að hjá sumum væru uppi önnur sjónarmið en bara þau heiðarlegu sjónarmið sem ég gef mér að hv. flutningsmaður málsins, hv. þm. Andrés Ingi Jónsson, hafi haft í huga. Það komu ýmis önnur sjónarmið í gegn sem bentu til þess að það væri lykilatriði að ná þessu í gegn fyrir þær kosningar sem nú fara í hönd. Þá hafa menn væntanlega verið að telja í sundur atkvæði. Það kann ekki góðri lukku að stýra með mikilvæga lagasetningu eins og þessa sem hér er fjallað um.

Aftur vil ég segja: Frávísunartillagan liggur hér fyrir, tillaga um að vísa málinu til ríkisstjórnar. Hún mun koma til afgreiðslu þegar málið kemur til atkvæðagreiðslu í heild sinni. Að öðru leyti vil ég ítreka það sem ég sagði í fyrri hluta umræðunnar í síðustu ræðu minni að það verður enginn asi, ekkert (Forseti hringir.) tímahrak og málið mun fá miklu betri og dýpri (Forseti hringir.) umræðu og meðferð ef því verður vísað til ríkisstjórnar heldur en ef samþykkt verður breytingartillaga hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés.