148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:53]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Það eru nokkur atriði sem mig langar til þess að fá að koma inn á úr ræðu hv. þm. Líneikar Önnu Sævarsdóttur.

Fjölmörg atriði komu fram í umsögnum og fyrir nefnd og í umræðum á fyrri stigum sem eru í þá veru að lýst er miklum efasemdum um það frumvarp sem nú er til umræðu. Mér leikur hugur á að vita hvaða efasemdaradda hv. þingmanni hefur þótt mest ástæða til að taka tillit til. Og þá kannski í leiðinni hver þau meginatriði eru hvað efasemdirnar varðar, þóttu halda best og hvers vegna hún telur að ekki sé ástæða til þess að skoða þau með dýpri og yfirgripsmeiri hætti. Hún kom inn á að hún vildi bara horfa þröngt á málið, bara þessi inntökuréttindi en ekki önnur. En vissulega hefur komið fram mikill fjöldi athugasemda þar sem miklum efasemdum er lýst. Hverjar þeirra efasemda þóttu henni vera veigamestar?