148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:57]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Komið hafa fram atriði sem snúa að því að fyrr í umræðunni var til að mynda fjallað um nafnlausan áróður og þar fram eftir götunum. Eitt af þeim atriðum sem sérstaklega var rætt um á fyrri stigum umræðunnar var hvernig samskiptum frambjóðenda og ólögráða barna yrði háttað í kosningabaráttu. Ég verð að viðurkenna að ég er nú svo einfaldur að ég sé ekki alveg að komin sé nein lausn á því. Þarf foreldri að vera með þegar rætt er um kosningar við barnið? Ýmsar umsagnir horfðu í þá átt. Það undirstrikar hversu kauðslegt er að slíta þessi réttindi í sundur, að frambjóðendur megi herja á börn sem eru ólögráða og ófjárráða. Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því atriði?