148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:59]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir fína ræðu og skýringar á afstöðu þingmannsins. Nú er komin fram breytingartillaga um að vísa málinu til ríkisstjórnar. Hún er m.a. rökstudd með því að málið sé stórt að umfangi, sem það vissulega er, og þarfnist þar af leiðandi betra utanumhalds. Með því að vísa málinu til ríkisstjórnar til frekari vinnslu gæfist líka færi á því að skoða samhliða önnur tengd málefni tengd aldri, svo sem bílprófið, áfengiskaupaaldurinn, sjálfræðið og allt þetta sem við þekkjum.

Mig langar að spyrja þingmanninn út í það hvort það geti ekki verið skynsamlegt að nota tækifærið og vísa málinu til ríkisstjórnarinnar ásamt þeim orðum að það eigi að skoða þetta allt í samhengi til þess að menn séu búnir að mynda sér einhverja heildarskoðun á því hvar þessi aldursmörk öll eigi að liggja þegar kemur að sveitarstjórnarkosningum eftir fjögur ár. Það er óneitanlega ósamræmi í því að það megi kjósa 16 ára, keyra bíl 17 ára, kaupa áfengi 20 ára, vera inni á áfengisveitingastað 18 ára, verða forseti 35 ára, en það kemur þessu kannski ekki við. Það er einhvern veginn ekki eðlileg samfella í þessu finnst manni, mér í það minnsta.

Mig langaði að spyrja þingmanninn hvort það geti ekki verið betri leið að fela ríkisstjórninni að vinna málið með þessum hætti.

Annað er að ef við samþykkjum málið og lögin taka gildi, það fer í gang einhverra ára vinna, svo er niðurstaðan kannski sú að það hafi ekki verið rétt að fara þessa leið, að það hafi verið rangt af þinginu að samþykkja að leiða þetta í lög. Þá þurfum við að taka lögin úr gildi með nýjum lögum. Er það ekki verri kosturinn ef sú staða kæmi upp?