148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[19:23]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta var einmitt það sem mig langaði að koma inn á í seinna andsvari mínu, sá bragur sem er á þessu, að ætla að afgreiða breytingu á lögum eins og lögum um kosningar, í svona miklu ósætti. Ég held að það hljóti að vera fordæmalaust. Auðvitað eru lög um sveitarstjórnarkosningar þeirrar gerðar að það þarf ekki að breyta stjórnarskrá eins og þyrfti t.d. vegna aldursviðmiða til alþingiskosninga, en þetta eru engu að síður lög um sveitarstjórnarkosningar og það að þeim sé breytt í ágreiningi — nú verða menn að leiðrétta mig ef ég fer rangt með — hlýtur að vera fordæmalaust og því miður bara alveg galið eins og það horfir við mér að ætla að breyta einmitt lögum eins og þessum í ósætti. (Forseti hringir.) Það eru ótal margir lagabálkar sem má breyta í ágreiningi. Ég hef oft talað fyrir því að menn eigi að takast á og klára mál og (Forseti hringir.) menn eigi að slást í pólitík, en um breytingar á kosningalögum þykir mér (Forseti hringir.) það ekki eiga við.