148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[19:35]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp um að lækka kosningaaldur barna niður í 16 ár, höfum rætt það fram og til baka. Síðan er komin breytingartillaga og líka frávísunartillaga frá hv. þm. Bergþóri Ólasyni. Í frávísunartillögunni segir:

„Í ljósi umfangs málsins og þeirra sjónarmiða sem komið hafa fram við umræðuna er rétt að leggja til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar svo að tími gefist til að undirbúa málið nægilega vel.“

Ég tek heils hugar undir þessa greinargerð í frávísunartillögunni í ljósi þess sem maður hefur heyrt frá vísum mönnum, m.a. var vitnað hér í ræður og frumvörp síðan 1965, þar sem Benedikt Gröndal talaði um að við yrðum að vanda okkur við ákvarðanatöku í svona stórum málum.

Ég spurði síðasta ræðumann hvort við ættum þá ekki að ganga enn lengra og breyta bílprófsaldri. Hann var ekki alveg sammála því. En ég hef lesið það í fréttum að margt ungt fólk lendir í slysum einmitt á fyrsta til öðru árinu sem það hefur bílpróf. Það hefur reyndar dregið úr því eftir að æfingaaksturinn kom til hjá 16 ára ungmennum. Við þurfum að vanda okkur í sambandi við kosningarnar og breyta lögum, ef af verður, í góðri sátt.

Fólk sem er 18 ára má fara inn á vínveitingastaði en það verður að horfa á hina neyta áfengis, það má ekki neyta áfengis fyrr en tvítugt. Þegar ég var ungur og fékk kosningarrétt varð maður að vera orðinn tvítugur. Ég held að ég geti fullyrt að á þeim tíma, þegar ég var tvítugur, var ég ekki mikið að velta þessu fyrir mér. Ég heyri á unglingum í dag, þeim sem ég tala við, að þeir hafa ekki mikinn áhuga á þessu svona heilt yfir. Það er eitt og eitt ungmenni sem treystir sér til að kjósa en það hafa líka komið, eins og ég sagði í ræðu fyrr í dag, mjög harðorðar ályktanir um að við eigum að láta ungt fólk í friði og leyfa því að taka út sinn þroska áður en að það fær kosningarrétt.

Þau eru gild þessi rök með sjálfræðisaldurinn og lögræðisaldurinn og svo kosningaaldur, að þetta sé samræmanlegt, að ekki þurfi að leita samþykkis foreldris fyrir því að barnið megi kjósa. Mér finnst þetta mál ekki fullrætt og mér finnst að taka þurfi þetta fyrir í breiðri sátt á Alþingi. Við eigum að geta verið stolt af því, þegar og ef sú ákvörðun verður tekin, að það hafi verið gert þvert á flokka á hinu háa Alþingi.