148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

loftslagsmál og samgöngur.

[13:40]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Hvað varðar borgarlínu og samgöngumál almennt, þegar kemur að loftslagsmálum, tek ég hjartanlega undir það að þar eru stór verkefni fram undan, ekki síst hvað það varðar að rafvæða bílaflotann sem ég held að sé næsta stóra verkefnið okkar. En til þess að koma sérstaklega að spurningu hv. þingmanns um borgarlínuna er alveg ljóst að það er vilji hjá ríkisstjórninni til að skoða þessi mál með borginni eins og fram hefur komið hér í sölum Alþingis, bæði hjá þeim sem hér stendur og líka hjá samgönguráðherra.

Varðandi það hvernig þetta kemur fram í fjármálaáætlun: Það sem snýr að mínu ráðuneyti í fjármálaáætlun tekur ekki sérstaklega á borgarlínunni enda heyrir hún ekki undir ráðuneyti mitt með þeim hætti. Þeir fjármunir sem koma með fjármálaáætlun í loftslagsmálin eru meiri en við höfum séð hingað til og munu tæpir 7 milljarðar á næstu fimm árum fara í það (Forseti hringir.) að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og binda kolefni í jarðvegi og gróðri. Það er það sem er um það að segja hvað varðar mitt ráðuneyti.