148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

biðlistar.

[13:53]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að beina fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um biðlista. Ástæða þess að ég spyr um þetta núna er sú að ég var minntur á það nýlega af einstaklingi sem spurði hvað ætti að ske í biðlistamálum. Hann er með meðaltekjur, 8–9 milljónir á ári, aðgerðin kostar milljón og ég kalla þetta að spara aurinn og henda krónunni.

Ég lenti í þessu sama fyrir rúmum 20 árum. Þá reiknaði ég út að það kostaði ekki nema einn fimmta að gera aðgerðina á mér en það var sagt: Nei. Tryggingafélagið Skandia vildi gera þetta og þá var sagt: Nei, það má ekki gera einka, þú ert á biðlista í heilt ár og þú verður bara að kveljast þar.

Ég slasaðist nefnilega ekki rétt. Það er þannig á Íslandi að ef maður slasast ekki rétt er maður settur í hálfgert fangelsi þar sem maður á að kveljast í heilt ár, jafnvel tvö, þrjú ár. Hvernig í ósköpunum getur staðið á því að á sama tíma eru t.d. 24 einstaklingar á þessu ári, bara það sem af er þessu ári, á leiðinni til Svíþjóðar í aðgerð sem hefði verið hægt að gera á 75 manns hérna heima fyrir sama pening?

Það eru 20 ár síðan ég var á biðlista og það er engin breyting, ef eitthvað er er það verra, og ég spyr fyrst það er engin breyting: Er það stefna þessarar ríkisstjórnar að eftir 20 ár verði sama ástand eða jafnvel verra? Þess vegna spyr ég ráðherra: Hvað er að ske í biðlistamálum og hver er stefnan?