148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

norðurslóðir.

[14:51]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt á að þakka hv. málshefjanda Ara Trausta Guðmundssyni og hæstv. ráðherra fyrir þessa umræðu og öðrum hv. þingmönnum. Mikilvægi norðurslóða í alþjóðamálum hefur aukist verulega á síðustu árum. Ísland á sem norðurskautsríki og stofnaðili að Norðurskautsráðinu mikilla hagsmuna að gæta á norðurslóðum. Lega landsins og aðgangur að náttúruauðlindum á svæðinu mótar hagsmuni okkar.

Fyrirliggjandi stefna í málefnum norðurslóða hefur sjálfbæra þróun sem mikilvægan hornstein. Full ástæða er til að vera á varðbergi gagnvart miklum breytingum sem gætir í umhverfinu, ekki síst vegna loftslagshlýnunar sem gengið hefur hraðar fram en almennt var gert ráð fyrir. Á hinn bóginn þarf að gæta að miklum breytingum sem gætu staðið fyrir dyrum í samgöngum, orkuöflun og auðlindanýtingu á norðurslóðum.

Formennska Íslands í Norðurskautsráðinu 2019–2021 þarf að vera reist á metnaðarfullum áherslum í samræmi við hagsmuni okkar og þá ekki síst, herra forseti, á sviði sjálfbærrar þróunar og verndar vistkerfis fyrir utan efnahagslega og öryggistengda hagsmuni á norðurslóðum.