148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

norðurslóðir.

[14:56]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu hér í þingsal sem að mínu mati ætti að vera með reglubundnum hætti hér í þinginu líkt og önnur utanríkismál. Málefni norðurslóða eru jú utanríkismál og umhverfismál, fyrst og fremst. Ísland hefur unnið mikilvægt starf hingað til innan Norðurskautsráðsins, sér í lagi á árunum 2003–2004 sem Ísland var í stjórn. Það má sjá á skýrslunni Arctic Climate Impact Assessment sem gefin var út á þessum árum og samanstendur af nákvæmum rannsóknum á áhrifum loftslagsbreytinga á norðurslóðir og ástæður þeirra.

Ísland státar sig oft og iðulega, bæði hér heima og á alþjóðavettvangi, af því að vera leiðandi meðal annarra ríkja þegar kemur að endurnýjanlegri orku og sjálfbærni. Þetta eru helstu einkenni norðurslóðastefnu Íslands. Þrátt fyrir góðan metnað og fallegar yfirlýsingar af Íslands hálfu virðist, þegar kemur að róttækum breytingum hvað varðar losun gróðurhúsalofttegunda, því miður minna vera aðhafst varðandi umhverfisstefnu landsins. Hafa stjórnvöld verið gagnrýnd fyrir afskiptaleysi þar, eins og fram kemur í MA-ritgerð Bryndísar Samúelsdóttur frá 2017. Staða Íslands, þegar kemur að losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnishlutleysi, er því miður ekki eins vænleg og búast mætti við líkt og nýútkomnar skýrslur Umhverfisstofnunar og vísindanefndar um loftslagsbreytingar á Íslandi sýna báðar.

Virðulegi forseti. Áhrifin af loftslagsbreytingum í heiminum má sjá með einna skýrustum hætti á norðurslóðum. Hlýnun norðurskautsins hefur verið nánast tvöfalt meiri en annars staðar í heiminum. Það er því ljóst að áður en Íslendingar fara að beita sér í alþjóðastarfi gegn loftslagsbreytingum er aðkallandi og afar brýnt að við vinnum heimavinnuna okkar fyrst og gerum síðan allt okkar og meira til til að uppfylla þau alþjóðlegu viðmið sem við höfum undirgengist þegar kemur að loftslagsmálum. Ég vil brýna ríkisstjórnina í þeim málum. Sér í lagi þegar ljóst er að Ísland mun ekki ná markmiðum Parísarsamkomulagsins. Þá þarf að grípa til róttækra aðgerða sem fyrst.

Í ríkisstjórnarsáttmálanum er því lýst yfir að málefni norðurslóða séu forgangsmál í íslenskri utanríkisstefnu og að í formennskutíð okkar munum við leggja áherslu á heimsmarkmiðin, loftslagsmál, málefni hafsins, á réttindi frumbyggja og jafnrétti kynjanna í samræmi við samþykkt á norðurslóðastefnu Íslands frá árinu 2011. Þetta eru að mínu mati mjög góðar áherslur en það er líka von mín, þó að ekki sé sérstaklega kveðið á um það í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, að grein nr. 9 í tólf þátta stefnumörkun Íslands í norðurslóðamálum fái meira vægi, það er greinin sem fjallar um það að Ísland vilji vinna gegn hvers konar hervæðingu norðurslóða. Það er að mínu mati afar mikilvægt að Ísland leggi enn meiri áherslu á þennan þátt norðurslóðastefnunnar, sér í lagi þegar litið er til þeirra stórvelda sem skipa sér í hóp þeirra ríkja sem skilgreind eru sem norðurskautsríki.