148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

norðurslóðir.

[15:06]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við norðurslóðir og áherslur Íslands þegar það tekur við formennsku í Norðurskautsráðinu árið 2019. Í þessari tveggja ára formennskutíð gefst Íslendingum mikilvægt tækifæri til að hafa áhrif á og vekja athygli á málefnum norðurslóða, bæði hér heima og erlendis. Ég hef m.a. kynnst málefnum norðurskautsins í gegnum vinnu í Íslandsdeild þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál. Sú vinna hefur sannfært mig um að við Íslendingar höfum ýmsu að miðla til annarra íbúa á norðurslóðum og getum margt lært af öðrum, auk þess sem samstarfið eykur líkur á árangri í vinnu að sameiginlegum hagsmunum íbúanna á þessum svæðum sem flestir lúta að umhverfismálum.

Sjálfbærni svæðisins byggir m.a. á þekkingu á náttúrunni og áhrifum breytinga á hana en ekki síður á þekkingu á samspili manns og náttúru og því hvernig fólk hefur lifað af á þessum svæðum í gegnum tíðina. Öflun, úrvinnsla og miðlun þekkingar frá þeim sem byggja svæðin og þekkja lífsbaráttuna þar er eitt af því sem ég tel mikilvægt að gefa gaum. Söfnun og miðlun staðbundinnar þekkingar og tenging hennar við alþjóðlegt þekkingarsamfélag getur skipt sköpum þegar tekist er á við breytingar og þróun sem nú á sér stað. Lykill að því að þessi miðlun verði er aukin menntun íbúa á svæðunum. Íslenskir háskólar gegna lykilhlutverki í samstarfi við alþjóðavísindasamfélagið, ekki síst Háskólinn á Akureyri og stofnanir sem honum tengjast. Ein af þeim er Rannsóknastöðin Rif sem staðsett er á Melrakkasléttu og er aðili að svonefndu INTERACT-neti 76 rannsóknastöðva víðs vegar í kringum pólinn sem eru vettvangur alþjóðlegra rannsókna.

Meðal þess sem ég tel að Íslendingar eigi að leggja áherslu á að miðla eru aðferðir í forvörnum við að draga úr (Forseti hringir.)áfengis- og vímuefnaneyslu ungmenna, leiðir í vinnu að jafnréttismálum, þekking á virkjun jarðhita, (Forseti hringir.)áhersla á fjarskipti og aðferðir til að bregðast við aukinni ásókn ferðamanna í viðkvæma náttúru norðurslóða.