148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

stjórnarmál of seint komin fram.

[15:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað örstutt upp til að gera athugasemd og tek undir það sem hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson kom inn á fyrr í dag, að við fáum núna inn fjölda mála sem á að taka með afbrigðum inn í þingið, ef leyft verður. Auðvitað verður það leyft, hefðin er að liðka til fyrir þessum málum. En það er alltaf vont og hálfóþolandi þegar hlutirnir gerast með þessum hætti, sem gerist í rauninni fyrir hver einustu jól og á hverju einasta vori, gerist þrátt fyrir að við séum með ákveðnar dagsetningar sem á að miða við.

Við hljótum að gera þá kröfu á ríkisstjórnina eins og við töluðum um reyndar fyrir mörgum mánuðum að við myndum ekki lenda í því að koma með fullt af málum inn í þingið þegar ljóst væri að tímasetningar væru liðnar.

Ég bið forseta að koma því til skila til ríkisstjórnarinnar að þessu þurfi að breyta og að við eigum að læra af reynslunni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)