148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

markaðar tekjur.

167. mál
[16:32]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég hef ítrekað rætt um þetta mál, markaðar tekjur, í fjárlaganefnd þar sem það var lagt fram á tímabilinu 2013–2016. Þar komu fram umsagnir sem hanga við þetta mál núna. Þá vorum við ekki komin áleiðis í lögum um opinber fjármál eins og við erum í dag, þ.e. að þetta hangi við þau. Ég verð að segja að ég hef haft ákveðnar efasemdir um að fara þessa leið en skil hana hins vegar mætavel. Ég ætla ekkert að draga í efa að allt bókhald verður einfaldara og annað slíkt, en margir óttast um sinn hag. Það má heldur ekki gleyma því að fjárstjórnarvaldið er og hefur alltaf verið Alþingis.

Hér kom fram áðan að einhverjir hefðu efasemdir um að hafa samþykkt lögin um opinber fjármál. Við höfum líka rætt það töluvert í nefndinni hvort breytinga sé þörf einhvers staðar, hvort við þurfum að árétta eitthvað hvað þau varðar. Þingmenn hafa margir talið sig hafa minna um þetta að segja. Síðan er það þetta vinnuferli sem við erum að læra. Við höfum í raun aldrei komist í gegnum það að fullu fyrr en kannski núna, þ.e. fjármálastefnu, fjármálaáætlun og svo fjárlög. Það er kannski fyrst núna sem við erum að fara í gegnum allan þennan feril. Það er því ekki komin reynsla á verkferlið í sjálfu sér. Svo hafa verið kosningar og alltaf verið að vinna hlutina fullhratt, að mínu mati a.m.k. Við þurfum að slípa hlutina til þegar við erum búin að ganga í gegnum þetta ferli að fullu einu sinni. Ég efast ekki um að eitthvað má betur fara eins og margoft gerist í lagasetningu.

Með því að fara í afnám markaðra tekna, þó að skrefið sé einungis stigið til hálfs, erum við að hreyfa við mörgum tugum lagaákvæða sem hafa verið í föstum skorðum afar lengi. Það er grundvallarbreyting þó að við séum einungis að fara hálfa leið. Það mátti líka búast við því að sníða þyrfti sérlausnir. Ég veit ekki hvort það hefði breytt einhverju ef við hefðum geymt þetta áfram, hvort við hefðum þurft að taka þetta í skrefum eins og margt annað sem við höfum verið að gera. Eins og hér hefur verið rakið eru þetta háar fjárhæðir í sjálfu sér. Tæpir 126 milljarðar eru markaðir í 60 mismunandi fjárlagaliðum og öðrum viðfangsefnum á gjaldahliðinni. Fram undan er það verkefni að fara í gegnum þau sérlög sem þessi lög hafa áhrif á og við þurfum að laga.

Það eru örfá atriði sem ég hef haldið til haga í þessari umræðu allri, bæði þegar við ræddum málið í fyrra skiptið í fjárlaganefnd, við 1. umr. þessa máls, og í nefndinni. Ég vil enn horfa til þess að við ræðum það betur í fjárlaganefnd þó að ekki sé nema til upplýsingagjafar. Ég tek undir grunnstefið í þessu, að það sé ekkert endilega markmið að stofnanir vaxi og minnki eftir umfangi tiltekinna sértekna eða annað slíkt, heldur sé það aðeins ákveðið hér á þinginu hvernig við viljum láta umhverfi okkar, hið opinbera, líta út. Það gerum við í gegnum fjárlög.

Þó svo að fjárstjórnarvaldið sé ævinlega hjá Alþingi þá hefur verið horft til þess að ákveðnir fjármunir séu rammaðir til ákveðinna hluta. En svo má kannski segja að mörkunin hafi ekki virkað nema að hluta vegna þess að í áranna rás, eins og við þekkjum í umræðunni, hefur til dæmis ekki allt fé runnið til Vegagerðarinnar, það hefur ekki allt runnið til RÚV sem nemur þeim gjöldum sem hafa verið innheimt o.s.frv. Að mörgu leyti má segja að þetta hafi að einhverju leyti þegar verið fallið um sjálft sig.

Ég hef töluvert horft til Vegagerðarinnar. Þar hef ég verið að velta því fyrir mér hvernig við förum með skuldina, þessa 19 milljarða, sem tekin er fram, að mig minnir, í nefndaráliti okkar. Ég ætla að lýsa ánægju minni með að allir nefndarmenn skrifa undir þetta álit. Þó að við höfum öll skoðanir á því og hefðum kannski viljað gera hlutina á annan hátt teljum við að þetta sé skref sem við þurfum að stíga. Vegagerðin er með neikvætt eigið fé eins og ég hef ítrekað rætt hér á þingi. Ég ætla aðeins að átta mig á því hvert er þá upphafsviðmiðið.

Við leggjum fram samgönguáætlun, hún verður væntanlega römmuð inn miðað við fjármálaáætlunina. Nú erum við að taka þessi 0,5% af bensíngjaldi og allt sem þar er undir og Vegagerðin er með neikvæðan höfuðstól — skilaði að vísu betri afkomu en hún gerði síðast. Það breytir því ekki að við þurfum að finna einhvern punkt finnst mér alla vega. Ef við höfum gert ráð fyrir því að þessi prósenta hefði átt að renna að óbreyttu til Vegagerðarinnar, þó að hún hafi ekki gert það, hver á þá upphafsstaðan að vera? Þetta er eitthvað sem þingið þarf að taka ákvörðun um. Mér finnst ekki að framkvæmdarvaldið eigi að gera það. Mér finnst að þingið eigi að gera það. Við tökum þá umræðu að einhverju leyti í gegnum samgönguáætlun en líka í gegnum fjárlögin.

Fjárlögin verða væntanlega sett fram með öðrum hætti næsta haust þar sem ekki verður um þessa mörkun að ræða. Ég geri ráð fyrir því að frumvarpið nái fram að ganga miðað við það að allir hér rita undir þetta. Mér finnst að við þurfum að ræða þetta betur og velta upp okkar á milli. Ég er ánægð með þá breytingu sem gerð var frá því frumvarpið var lagt fram, t.d. með vinnumarkaðsmálin. Ég held að það hafi verið afskaplega nauðsynlegt. Þegar við erum að semja við þriðja aðila verður hann að vera með í breytingum. Þetta hefur verið partur af kjarasamningum eins og hér hefur verið rakið. Það lá nú eiginlega beint við að það yrði gert.

Síðan er vel búið um RÚV og nefskattinn vegna þess að hann verður áfram. Ég lagði til breytingu í fjárlaganefnd sem sneri að Framkvæmdasjóði aldraðra, að hann fengi sambærilega meðhöndlun og RÚV, af því það er nefskattur. Mér fannst eðlilegt að það yrði með sambærilegum hætti. Annaðhvort ákveðum við að afnema nefskatt eða ekki. Það er reyndar skattur sem mér finnst ekki vera sérstaklega jákvæður. Hann kemur misvel við fólk. Þeir sem standa höllum fæti borga meira hlutfallslega þó að allir borgi það sama. Nefskattur er aldrei sanngjarn skattur gagnvart þeim sem greiða hann.

Meðan ekki hefur verið tekin ákvörðun um að afnema nefskattinn finnst mér að þeir tveir aðilar sem við innheimtum hann fyrir eigi að fá sömu meðhöndlun. Það er lagt til í breytingartillögum af hálfu fjárlaganefndar. Enda verðum við að horfast í augu við það að fram undan er mikil uppbygging í hjúkrunarrýmum. Það er hlutverk þessa sjóðs að vera úthlutunarsjóður hvað varðar dvalarrými, endurbætur og annað slíkt. Ég held að hann hafi skilað 2,5–3 milljörðum á síðasta ári. Það má svo sem segja, með hann eins og aðra, að sjóðurinn hefur gjarnan verið nýttur í rekstur — ekki undanfarin ár, en á ákveðnu tímabili var það gert. Það er eitthvað sem á ekki að gera. Þangað til frumvarpið hið síðara, um markaðar tekjur eða afnám þeirra, kemur fram — hvort þetta verður þá tekið fyrir með einhverjum hætti og afnumið skal ég ekki segja — finnst mér við þurfa að huga að þessu.

Ég hef talað mikið fyrir Ofanflóðasjóði í gegnum tíðina og held áfram að gera það. Ég bý í sveitarfélagi sem hefur þurft töluvert á þessum sjóði að halda og hef reynslu af því að þetta skiptir máli. Reyndar er þokkalega um það búið að því leytinu til að beinlínis er mælt fyrir um það í frumvarpinu að fjárveitingarnar eigi að taka mið af framkvæmdaáætlun til næstu fimm ára. Það er út af fyrir sig jákvætt. Hitt er svo annað mál, og maður getur velt því fyrir sér hvort það tekur mið af raunverulegri þörf fyrir framkvæmdir við ofanflóðavarnir — ég hef efasemdir um það og hef sagt að ráðstöfunarfé Ofanflóðasjóðs síðustu ára, þ.e. útgreiðsluheimildir, hefur verið innan við helmingur af mörkuðum tekjum sjóðsins. Mér hefði þótt eðlilegt að við hækkuðum það og endurskoðuðum þessar fjárheimildir í ljósi þeirra þarfa sem fram undan eru og hafa beðið. Ég sagði það hér við 1. umr. að við gætum líka flýtt framkvæmdum, það væri ekkert sem banni það. Jarðvegsvinna kemur sér ágætlega. Það skapast engin óheyrileg þensla af því. Það var líka óskynsamlegt þegar ekki var ákveðið að halda áfram með framkvæmdirnar fyrir austan, á Norðfirði, þar sem tæki og tól voru til staðar í staðinn fyrir að flytja allt í burtu og byrja svo aftur seinna. Það er oft þannig, held ég, hjá hinu opinbera að ekki er horft til lengri tíma. Þar hefði ég viljað sjá öðruvísi farið að. Ég held að það væri okkur hollt í fjárlaganefnd, í okkar eftirlitshlutverki, að fá starfsmenn ráðuneytisins, sem hafa með Ofanflóðasjóð að gera, til okkar þegar við höfum tíma til að fara yfir hvernig næstu fimm ár líta út, hvernig þetta hefur allt saman verið. Ég held að það sé hið besta mál að gera það.

Það hafa komið fram spurningar um að útvíkka hlutverk Ofanflóðasjóðs þannig að hann komi líka að því að styrkja sjóvarnargarða sem falla ekki undir hafnarmannvirki. Ég held að við þurfum að velta þessu mjög vel fyrir okkur og miða fjárheimildir við það hvaða önnur verkefni sjóðnum er ætlað að fjármagna.

Þetta eru stærstu málin sem ég hef flaggað hér á þingi. Eins og ég segi er ágætlega um þetta búið núna eins og þetta lítur út og ég hef engar stórkostlegar áhyggjur. En mér finnst eðlilegt að við fáum kannski að fara örlítið betur ofan í þetta þannig að nefndin átti sig betur á því fyrir fjárlagagerðina næsta haust hvort við getum komið inn í þetta með einhverjum öðrum hætti — eða með hvaða hætti yfirleitt, hvort þörf sé á því eða ekki.

Heilt yfir er þetta „hálfnað er verk þá hafið er“. Þetta er svolítið svoleiðis. Þetta er ekkert slæmt en ekki heldur eins og best verður á kosið. Við erum öll sammála um það en teljum kannski að það sé í lagi að samþykkja þetta og ganga hálfa leið sem hér er lagt til. Eins og ég sagði í upphafi máls míns er ekki endilega víst, þó að við hefðum geymt það lengur, að okkur hefði auðnast að setja alla mörkun til hliðar. Ég veit það samt ekki. Auðvitað veit maður ekki fyrr en á reynir.