148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Evrópudagurinn er haldinn hátíðlegur í dag um alla Evrópu til að fagna friði og einingu í álfunni. Að mínu mati er það engin tilviljun að nánast allar þjóðir Evrópu eru annaðhvort aðilar að Evrópusambandinu eða hafa sótt um aðild. Í stuttu máli mætti segja að helstu kostirnir við aðild Íslands að ESB væru aukin áhrif, lægra matvælaverð, aukinn stöðugleiki, lægri vextir, auknar erlendar fjárfestingar, minni gengissveiflur, lægri viðskiptakostnaður og engin verðtrygging.

Upptaka evrunnar ein og sér myndi þýða tugmilljarða króna ávinning á hverju einasta ári. Ef við værum með evrópskt verð á peningum og norrænt verð á matvælum myndi sérhvert íslenskt heimili spara 150.000 kr. á mánuði.

Ég vil einnig árétta að rétturinn til nýtingar sjávarauðlindarinnar mun ekki breytast við inngöngu í ESB, m.a. út af reglunni um veiðireynslu.

Á sínum tíma fékk ég staðfest frá einum af framkvæmdastjórum ESB að Ísland er að taka upp um 75% af meginlöggjöf ESB nú þegar. Það sýnir ótrúlega vanþekkingu hjá utanríkisráðherra Íslands að tala um að við séum einungis að taka upp um 13% af löggjöf ESB. Heldur ráðherrann að 87% af ESB séu sjávarútvegur og landbúnaður? Það eru þau meginsvið sem eru fyrir utan EES. Heldur ráðherrann að regluverk fjórfrelsisins um frjálsa för fólks, fjármagns, vöru og þjónustu sé einungis 13% af ESB og Evrópusamstarfinu?

Herra forseti. Stærstu fyrirtæki landsins, þar með talin sjávarútvegsfyrirtæki, hafa fyrir löngu yfirgefið krónuna og íslenska vexti. Á meðan eru íslensk heimili og venjuleg fyrirtæki látin sitja uppi með einn sveiflukenndasta gjaldmiðil í heimi og vexti á sterum.