148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég hef oft komið í þennan ræðustól til þess að fjalla um umferðaröryggi en nú ætla ég að fara að fordæmi hv. þm. Haraldar Benediktssonar og tala um netöryggi.

Hann líkir þessu tvennu saman, hver þróunin hefur verið í umferðaröryggi hér á landi í gegnum árin. Hvernig við vorum frekar slöpp í því til þess að byrja með en höfum sótt í okkur veðrið þótt enn megi margt bæta þar. Ég held að við séum svolítið þar í netörygginu. Við þurfum, hér í þessum sal sem víðar, að skoða hvað við erum að gera í netöryggismálum. Ég hvet hv. þingmenn sem aðra til að fara yfir grein hv. þingmanns í Morgunblaðinu í gær, 8. maí, þar sem hann fjallar um þessi mál.

Við erum mjög framarlega, Íslendingar, í netnotkun eins og mörgu öðru sem við tökum okkur fyrir hendur og þetta snertir okkur öll, okkar grunnkerfi. Þetta er náttúrlega inni á heimilunum hjá okkur, þetta er í fyrirtækjunum, þetta er í stjórnsýslunni, allar upplýsingarnar um okkur þar — og nýlega hafa sést brestir á því þegar sveitarfélögin fóru að dæla upplýsingum um okkur út á netið, það er ein birtingarmyndin. En þetta kemur líka inn á fjarskiptakerfin sjálf, öll veitukerfin, eins og raforkukerfið og annað slíkt, samgöngukerfin, fjármálastarfsemina, heilbrigðisstarfsemina, stjórnsýsluna og hvaða nöfnum sem þetta má nefna.

Ég fékk að taka þátt í úttekt hjá Oxford-háskóla hér fyrir ári sem skilaði niðurstöðum um 120 úrbætur. Það er eitthvað sem við þurfum að horfa til, til að verja bæði persónuupplýsingar, þessi kerfi og hvernig við ætlum að umgangast þessa nýju tækni. Við þurfum því að spyrja okkur: Hvar eru veikleikarnir, hvaða fræðslu erum við að sinna, hvað erum við að gera til þess að hafa þessi mál í lagi? Það er ekki nóg að vera best í tækninni og nota hana mest. Við verðum líka að vera best í örygginu.