148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

Störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil nú byrja á því að fagna ræðu hv. þm. Vilhjálms Árnasonar og undirstrika allt sem hann sagði. Reyndar er mitt mat að netöryggi sé sennilega akkillesarhæll vestrænnar siðmenningar.

En yfir í skylt efni, persónuverndarlög sem ég hef nokkrum sinnum nefnt áður. Nú er komið í ljós að frumvarp um ný persónuverndarlög, sem eru komin af reglugerð frá Evrópusambandinu, verður ekki lagt fram áður en við frestum fundum á Alþingi og förum í sveitarstjórnarkosningar. Þing kemur aftur saman eftir þær, þ.e. eftir að reglugerðin tekur gildi í Evrópusambandinu. Þetta eru verri fréttir en ég vonaðist til að þurfa að heyra. Þó verður að minnast á það sem er ástæðan fyrir því að ég nefni þetta hér enn og aftur, þ.e. von mín um að aðilar í samfélaginu, félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar, átti sig á að þeir hafa færi á að skoða drögin eins og þau verða lögð fram á Alþingi þegar sá tími kemur. Það er gert með því að fara inn á vefinn samradsgatt.is. Þar er leitarsvæði, þar er slegið inn „persónuvernd“. Þá kemur ein niðurstaða upp, smellt er á hana, frumvarp til nýrra persónuverndarlaga, og þar hægra megin á síðunni er hægt að sækja skjalið. Og þar sem þetta kemst ekki inn á þing núna þýðir það að frumvarpið fer ekki til umsagnar, sem mér finnst mjög alvarlegt. Þegar við förum að ræða þetta mál munum við gera það í tímaþröng og við munum ekki hafa umsagnir til að leiðbeina okkur með framhaldið. Það eru þegar hlutir í þessu frumvarpi sem er alveg þess virði að ræða og benda á. Ég er að vona að einstaklingar í samfélaginu nýti þó tækifærið sem er að finna á samráðsgáttinni til að skoða frumvarpið og verði tilbúnir til að senda inn umsögn þegar málið kemur loksins fyrir þingið.

Við verðum að gera þetta vel. Við ætluðum að verða best í persónuvernd, best í upplýsingafrelsi. Eins og staðan er núna erum við að klúðra því. Það er mjög sorglegt. Við eigum að beygja aftur af þeirri braut og aftur þangað sem við vorum, að ætla að vera best í þessu, ekki eftir á.