148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

afgreiðsla þingmannamála úr nefndum.

[15:45]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég hlýt auðvitað að furða mig á því eins og aðrir að sáttmáli um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis skuli birtast með þeim hætti að það leggist eins og ísaldarjökull yfir Alþingi, allt pikkfast og hreyfist ekki neitt. Það var sagt að nú ættu að verða ný vinnubrögð. Hvað er þetta þá? Eða hvað? Ég leyfi mér að segja það eins og aðrir hafa sagt hér að ég átti von á öðru meira og betra frá þeim ágætu flokkum sem hafa tekið hér höndum saman, framsóknarflokkum eftir því sem sagnir herma, í þessu samstarfi.

Herra forseti. Þetta verður að breytast. Það gengur ekki að mál séu hér algjörlega frosin og pikkföst og ekkert hreyfist.